Jafnréttisstofa hefur hafið innköllun á jafnréttisáætlunum hjá fyrirtækjum með 250 starfsmenn og fleiri. Þessi fyrirtæki eiga lögum samkvæmt að hafa öðlast jafnlaunavottun í lok þessa árs. Aðgerðabundin jafnréttisáætlun á grundvelli 18. grein laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er ein forsenda þess að fyrirtæki og stofnanir fái jafnlaunavottun. Lög um jafnlaunavottun tóku gildi 1. janúar á þessu ári.
„Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008 skulu fyrirtæki og stofnanir þar sem starfa 25 starfsmenn eða fleiri setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína. Sérstaklega skal þar kveðið á um markmið og gerð áætlun um hvernig starfsfólki eru tryggð þau réttindi sem kveðið er á um í 19.-22. gr. laganna. Jafnréttisáætlun og jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu skal endurskoða á þriggja ára fresti.
Í 1. mgr. 18. gr. koma jafnframt fram ýmsar skyldur sem á atvinnurekendur eru lagðar og taka þarf á í jafnréttisáætlun. Þar segir m.a. að atvinnurekendur skuli sérstaklega vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. Ennfremur skal sérstök áhersla lögð á að jafna hlut kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum,” segir í frétt á vef Jafnréttisstofu.
Jafnréttisstofa hefur eftirlit með því að lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sé framfylgt. Í ljósi þess kallar Jafnréttisstofa reglulega eftir jafnréttisáætlunum og skýrslum um stöðu og þróun jafnréttismála frá fyrirtækjum og stofnunum með 25 starfsmenn eða fleiri.
Í byrjun þessa árs lauk innköllun Jafnréttisstofu á jafnréttisáætlunum hjá opinberum stofnunum og kemur fram í fréttinni að rúmlega 90 prósent stofnana hafi skilað umbeðnum gögnum til Jafnréttisstofu.
