Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segir að uppreisnarmenn í Ghouta í Sýrlandi stöðvi neyðaraðstoð og flutning á fólki sem vill yfirgefa svæðið. Rússar ætla að halda áfram að styðja stjórnarher Sýrlands í baráttunni gegn uppreisnarmönnum sem þeir kalla „hryðjuverkamenn“.
Hundruð manna hafa fallið í loftárásum á austurhluta Ghouta undanfarna ellefu daga. Það er síðasta stóra vígi uppreisnarmanna nærri höfuðborginni Damaskus.
Reuters-fréttastofan segir að Lavrov hafi sagt mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í Genf að uppreisnarmenn haldi áfram að láta sprengjum rigna yfir Damaskus og þeir komi í veg fyrir að þeir sem eru fastir á yfirráðasvæði þeirra fái aðstoð eða að yfirgefa það.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun um þrjátíu daga vopnahlé í Sýrlandi um helgina. Hún nær hins vegar ekki til vopnaðra hópa sem eru á hryðjuverkalista SÞ. Stjórnvöld í Sýrlandi og Rússlandi segja að þessir hópar séu skotmark þeirra.
Rússar hafa lagt til fimm klukkustunda vopnahlé á dag til að leyfa óbreytturum borgurum að hafa sig á brott og svo hægt verði að koma neyðargögnum inn á svæðið. Það fyrsta fór út um þúfur í gær. Rússar og Sýrlandsstjórn sökuðu uppreisnarmennina um að hafa rofið það með sprengingum en þeir síðarnefndu neita því.
Sakar uppreisnarmenn um að koma í veg fyrir neyðaraðstoð í Ghouta

Tengdar fréttir

Árásir halda áfram þrátt fyrir vopnahlé
Sýrlandsher heldur áfram árásum þrátt fyrir að vopnahlé hafi verið samþykkt af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á laugardaginn var.

Öryggisráðið samþykkir 30 daga vopnahlé í Sýrlandi
Vopnahléið á að hefjast tafarlaust en það veltur á að Rússar fái Assad Sýrlandsforseti til að virða það.

Pútín skipar fyrir um fimm klukkustunda daglegt vopnahlé í Ghouta
Vladimir Pútín Rússlandsforseti vill að gert verði daglegt fimm klukkustunda hlé á árásum á Ghouta-svæðið í Sýrlandi. Árásir Sýrlandshers á svæðið hafa haldið áfram undanfarna daga, þrátt fyrir ályktun um vopnahlé sem samþykkt var í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á laugardag.