Innlent

Sparkaði í erlenda ferðamenn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Maðurinn var handtekinn við Lækjartorg, þar sem Héraðsdómur Reykjavíkur stendur.
Maðurinn var handtekinn við Lækjartorg, þar sem Héraðsdómur Reykjavíkur stendur. VÍSIR/VALLI
Karlmaður í annarlegu ástandi réðst á erlenda ferðamenn í miðborg Reykjavíkur í gærkvöldi. Hafði hann gengið um og sparkað í þá að sögn lögreglu, sem handtók hann við Lækjartorg á tíunda tímanum.

Þegar leitað var á manninum fundust í fórum hans það sem lögreglan telur vera fíkniefni. Ekkert vitrænt fékkst upp úr manninum og var hann því fluttur í fangaklefa á Hverfisgötu þar sem hann hefur mátt dúsa í nótt. Hann verður síðan yfirheyrður þegar æðið rennur af honum.

Ferðamennirnir sem urðu fyrir barðinu á manninum hyggjast ekki ætla að fylgja málinu eftir þar sem þeir eiga flug frá landinu í dag. Ekki fylgir sögunni hvort þeir séu slasaðir eftir árásina en ætla má að svo sé ekki.

Þrír ökumenn voru einnig stöðvaðir í nótt grunaðir um akstur undir áhrifum vímuefna. Þá reyndist ökumaður vera án réttinda og var því beðinn um að stöðva bifreiðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×