Óttar segir veginn illa farinn þar sem ekki sé búið að malbika; hann sé holóttur og verði því illfær í rigningum. Íbúar hófu malbikunarframkvæmdir á mótmælunum í dag og byrjuðu að steypa í veginn.
„Mótmælin eru tilkomin vegna þess að hingað er bara malarvegur, það er frá Borgarfirði og á Egilsstaði. Hann er orðinn mjög illa farinn og holóttur. Ég held við séum eini þéttbýlisstaðurinn á landinu sem hefur ekki malbikstengingu við annan þéttbýlisstað sem er þjónustukjarni. Það er kominn tími á þetta enda er þetta ekki mjög nútímalegt,“ segir Óttar.
Hann segir vel geta verið að íbúarnir haldi malbikunarframkvæmdunum áfram ef ekkert verður að gert.

Vegurinn frá Borgarfirði eystri til Egilsstaða er 70 kílómetrar en Óttar segir að rúmlega helmingur vegarins sé malbikaður. Fjöldi ferðamanna kemur til Borgarfjarðar eystri yfir sumartímann og segir Óttar að þá fari yfir 300 bílar að meðaltali á dag um veginn. Þegar tónlistarhátíðin Bræðslan fer svo fram eina helgi í júlí er mun meira álag á veginum að sögn Óttars.
„Og vegurinn ræður aldrei við það.“
Óttar segir malbikun vegarins hafa verið á samgönguáætlun í nokkur ár en ekkert hafi þó gerst.

Aðspurður nánar um ástand vegarins segir Óttar að það sé hægt að keyra hann en það sé hins vegar óásættanlegt að hafa svo slæman veg milli þéttbýlisstaða árið 2018. Óttar bendir jafnframt á að íbúar Borgarfjarðar eystri sæki í raun alla þjónustu um veginn.
„Það er ekki verslun hér og engin heilbrigðisþjónusta,“ segir Óttar.
Hann segir að til sé kostnaðaráætlun fyrir framkvæmdum á veginum.
„Það eru þrír kaflar sem þarf að malbika og samkvæmt kostnaðaráætlun kostar lengsti kaflinn um milljarð eða nálægt því. Það eru staðlar um að vegurinn þurfi að vera átta metra breiður en við höfum verið að berjast fyrir því að fá þá frekar eitthvað því það er hægt að veita undanþágu fyrir mjórri veg sem er örugglega helmingi ódýrara,“ segir Óttar.