Erlent

Hæst setti embættismaðurinn sendur suður

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Kim Yong-nam er forseti norður-kóreska þingsins.
Kim Yong-nam er forseti norður-kóreska þingsins. Vísir/AFP
Æðsti ráðamaður Norður-Kóreu, að leiðtoganum sjálfum undanskildum mun heimsækja Suður-Kóreu í þessari viku þegar Vetrarólympíuleikarnir hefjast þar í landi.

Hinn níræði Kim Yong-nam er forseti þingsins í Norður-Kóreu og hefur verið háttsettur í stjórnkerfinu þar í landi alla tíð, eða frá því landið varð til í Kóreustríðinu á sjötta áratug síðustu aldar. Um þriggja daga heimsókn er að ræða og mun Yong-nam fara fyrir 22 manna sendinefnd ríkis síns.

Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem þessi fulltrúi hins einangraða ríkis ferðast út fyrir hina víggirtu landsteina Norður-Kóreu að sögn breska ríkisútvarpsins. Hann fór til að mynda til Írans í fyrra þegar hann þáði heimboð Hassan Rouhani, forseta landsins, er hann fagnaði síðar innsetningu sinni. Þá var hann jafnframt viðstaddur þegar Vetararólympíuleikarnir í Sochi voru settir árið 2014.

Yong-nam er langháttsettasti stjórnmálamaður Norður-Kóreu sem heimsækir grannana í suðri en löndin tvö eru tæknilega enn í stríði eftir að samið var um vopnahlé árið 1953. Þíða hefur verið í samskiptum ríkjanna að undanförnu og munu þau ganga inn á Ólympíuleikvanginn undir sameiginlegum fána.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×