Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, sleppti kvöldverði í Suður-Kóreu sem Kim Yong-nam, formlegur þjóðarleiðtogi Norður-Kóreu, sótti einnig. Pence mætti seint og var í einungis fimm mínútur. Á þeim tíma tók hann í hendurnar á fjölda fólki en hann tók ekki í höndina né ræddi við Kim Yong-nam. Samkvæmt Yonhap fréttaveitunni forðuðust þeir að mæta hvorum öðrum.
Kvöldverðurinn var haldinn af forseta Suður-Kóreu, Moon Jae-in, fyrir opnunarhátíð ólympíuleikanna í Pyeongchang. Bæði Moon og Shinzo Abe, forsætisráðherra Japan, tóku í höndina á Kim.
Talsmaður Moon sagði að Pence hefði verið búinn að skuldbinda sig til þess að borða með íþróttamönnum Bandaríkjanna. Því hefði stutt vera hans á kvöldverðinum ekki verið í mótmælaskyni.
Samkvæmt Yonhap telja sérfræðingar þó að atburðurinn sé til marks um grunsemdir Bandaríkjanna varðandi bætt samskipti Suður- og Norður-Kóreu.
Pence sagði blaðamönnum í gær að Bandaríkin myndu beita Norður-Kóreu hámarks þrýstingi áfram þar til forsvarsmenn einræðisríkisins komi að samningaborðinu til þess að ræða kjarnorkuvopnaáætlun ríkisins og eyðingu kjarnorkuvopna þeirra.
Moon sagði hins vegar nauðsynlegt að halda viðræðum á milli ríkjanna áfram svo þær gætu leitt til alþjóðlegra viðræðna um kjarnorkuvopnin umræddu.
Ásamt Kim Yong-nam kom Kim Yo-jong, yngri systir Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu. Þau tvö munu funda með Moon á morgun og hafa þau sagt að ekki komi til greina að funda með Bandaríkjamönnum.
