Nóttin hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var heilt yfir heldur tíðindalítil ef marka má dagbókarfærslur hennar.
Þrír ökumenn voru stöðvaðir eftir miðnætti; einn er grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna, annar um að hafa ekið réttindalaus og sá þriðji er grunaður um að hafa verið bæði ölvaður og réttindalaus á rúntinum.
Þá bárust lögreglunni tvær tilkynningar um innbrot í austurhluta borgarinnar, annars vegar í Logafold í Grafarvogi og hins vegar á Bíldshöfða. Bæði málin eru að sögn lögreglunnar til rannsóknar.
Það var svo í Melbæ sem einstaklingur sást „kíkja á glugga“ og vakti það ónot íbúa á svæðinu. Lögreglan brá því á það ráð að aka um svæðið en samkvæmt dagbókarfærlunni bar aksturinn „ekki árangur.“
