Innlent

Guðrún vill baráttusæti í flokksvali Samfylkingar

Atli Ísleifsson skrifar
Guðrún Ögmundsdóttir, tengiliður vegna vistheimila.
Guðrún Ögmundsdóttir, tengiliður vegna vistheimila. vísir/gva
Guðrún Ögmundsdóttir, fyrrverandi þingkona og tengiliður vistheimila hjá dómsmálaráðuneytinu, hefur tilkynnt að hún taki þátt í flokksvali Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar í maí.

Frá þessu greinir Guðrún í lokuðum Facebook-hópi fyrir flokksfélaga Samfylkingarinnar. Hún kveðst þar sækjast eftir 5. til 8. sæti á listanum og telur að hún muni „nýtast best í baráttusæti.“

Guðrún segist í samtali við Vísi ekki nenna að taka einhverja slagi með því að sækjast eftir sæti ofar á lista. „Ég nenni því ekki. Sá tími er liðinn,“ segir Guðrún létt í bragði.

Hefði kosið uppstillingu

Í færslu sinni segist hún afskaplega lítið hrifin af prófkjörum og flokksvali og að hún hefði kosið að flokkurinn hefði gripið til uppstillingar.

„Ég vil hinsvegar leggja mitt að mörkum til að okkur farnist vel, því málefnin eru mörg og brýn. Ég er líka frekar brúarsmiður en átakamanneskja, ég er líka frekar víðsýn en þrönsýn, skil frekar en dæmi, vil hafa allt uppá borðum, þoli ekki neðanjarðarstarfsemi, vel mennskuna og málefnalegt samtal, er jafnaðarmaður og feministi og svo ótal margt annað,“ segir Guðrún sem segist jafnframt ekki ætla að eyða peningum í flokksvalsbaráttuna.

Guðrún sat á þingi fyrir Samfykingu á árunum 1999 til 2007. Hún var ráðin tengiliður vistheimila hjá dómsmálaráðuneytinu árið 2010.

Framboðsfrestur rennur út í dag og fer flokksvalið fram 10. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×