Samfélagsmiðlarisinn Facebook segir að rússneskir útsendarar hafi stofnað 129 viðburði sem tengdust forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016. Rúmlega sextíu þúsund Bandaríkjamenn boðuðu komu sína á viðburðina.
Þetta kom fram í skriflegu svari fyrirtækisins til Bandaríkjaþings frá því fyrr í þessum mánuði. Alls sáu 338.300 bandarískir Facebook-notendur viðburðina. Facebook hefur hins vegar ekki upplýsingar um hvort eitthvað hafi orðið af viðburðunum. CNN-fréttastöðin segist aftur á móti hafa fundið vísbendingar um að Bandaríkjamenn hafi mætt á mótmæli sem rússneskir útsendarar boðuðu til á Facebook.
Viðburðirnar snerust sumir um hitamál í bandarísku samfélagi eins og innflytjendamál, samskipti kynþáttanna og fleira, að því er segir í frétt Reuters. Þeim er sagt hafa verið ætlað að ala á sundrungu á meðal Bandaríkjamanna. Facebook hefur áður sagt að 126 milljónir Bandaríkjamanna gætu hafa séð áróður frá rússneskum útsendurum á síðunni.
„Óveruleg“ skörun við auglýsingar Trump-framboðsins
Bandarískar leyniþjónustustofnanir hafa komist að þeirri niðurstöðu að rússnesk stjórnvöld hafi reynt að hafa áhrif á forsetakosningarnar árið 2016 til að tryggja Donald Trump sigur.
Facebook sagðist einnig hafa fundið „skörun“ á milli auglýsinga rússneskra útsendara og framboðs Trump en segir hana „óverulega“. Fyrirtækið sé ekki í aðstöðu til að skera úr um hvort að samráð hafi átt sér stað á milli þeirra.
Það er viðfangsefni rannsóknar Roberts Mueller, sérstaks rannsakanda dómsmálaráðuneytisins. Trump hefur hafnað því alfarið að framboð hans hafi átt í samráði við Rússa og kallar rannsóknina „nornaveiðar“.
Þrír fyrrverandi starfsmenn framboðs Trump hafa verið ákærðir í tengslum við rannsókina.

