Reykjavíkurborg og Arkitektafélag Íslands í samvinnu við Reiti fasteignafélag efndu á síðasta ári til hugmyndasamkeppni um Kringlusvæðið. Alls bárust fimm hugmyndir að skipulagi svæðisins en tillaga Kanon arkitekta varð hlutskörpust.
Keppendur í hugmyndasamkeppninni voru sérstaklega beðnir um að leggja fram framsæknar skipulagshugmyndir fyrir reitinn með sérstakri áherslu á góða nýtingu svæðisins ásamt fjölbreyttu og aðlaðandi borgarumhverfi sem verði eftirsóknarvert til búsetu og starfa. Í samkeppninni afmarkaðist Kringlusvæðið af Miklubraut, Kringlumýrarbraut, Listabraut og eystri hluta þeirrar götu sem liggur í „U“ um svæðið út frá Listabraut og ber sama nafn og verslunarmiðstöðin Kringlan.

Í umsögn dómnefndar segir að tillagan feli í sér sveigjanlega landnotkun og möguleika á hentugri áfangaskiptingu. Styrkur hennar felist meðal annars í einfaldleika og gæðum þrautreynds fyrirkomulags borgargatna og húsa. Reiknað er með að við deiliskipulagsvinnu verðir þó einnig litið hugmynda sem komi fram í öðrum tillögum sem sendar voru inn í samkeppnina.
Myndaður verður starfshópur meðfulltrúum Reita, skipulagsfulltrúa og skrifstofu eigna og atvinnuþróunar til að vinna að verkefninu og verkstýra vinnu við gerð ramma- og deiliskipulagsáætlana sem unnar verða í beinu framhaldi af hugmyndasamkeppni um Kringlusvæðið sem haldin var í fyrra. Samhliða verður komið á fót vinnuhóp sem mun vinna hið eiginlega rammaskipulag og verður hann skipaður fulltrúum Kanon arkitekta, vinningshafa í hugmyndasamkeppninni um skipulag svæðisins, fulltrúa frá THG arkitektum, fulltrúa skipulagsfulltrúa, tæknilegum ráðgjöfum, Reitum og skrifstofu eigna og atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg.
Gert er ráð fyrir að drög að rammaskipulagi liggi fyrir um mitt ár 2018 og að fyrsti deiliskipulagsáfangi verði auglýstur til kynningar fyrir árslok 2018.
