Fyrirgefning og réttlæti Þórlindur Kjartansson skrifar 29. desember 2017 07:00 Skömmu fyrir jól urðu þau tíðindi í Bandaríkjunum að tveir miðaldra menn féllust í faðma, felldu tár og fyrirgáfu hvor öðrum áratugalanga beiskju. Viðburðurinn var svo hjartnæmur og fallegur að myndband af honum dreifðist undurskjótt um heimsbyggðina, þar sem milljónir miðaldra karlmanna horfðu á og felldu kannski sjálfir tár eða sugu að minnsta kosti hressilega upp í nefið. Faðmlag mannanna var tröllslegt, því annar þeirra er 205 sentimetra hár en hinn um 185 og báðir vöðvastæltir fyrrum atvinnumenn í íþróttum og ágætlega dúðaðir af velmegunarspiki eftir áratugina sem liðnir eru frá því þeir lögðu skóna á hilluna. Mennirnir tveir eru meðal frægustu körfuboltakappa níunda áratugarins; Magic Johnson og Isiah Thomas. Þeir voru nánir vinir sem ungir menn, en vinskapur þeirra súrnaði skyndilega fyrir 25 árum af ýmsum ástæðum—og þróaðist út í gagnkvæma fyrirlitningu, svikabrigsl og illmælgi. Þeir félagar settust loks niður og áttu sitt fyrsta samtal í áratugi. Fundur þeirra var fyrir milligöngu fjölda sameiginlegra vina og fjölskyldumeðlima sem öllum fannst orðið tímabært að gefa kærleiknum sem eitt sinn var á milli þeirra tækifæri til þess að feykja burt þeim skýjum sem síðar hrönnuðust upp.Kærleikurinn sigrar Á þeim tíma sem óvináttan stóð gat hvor um sig tínt til hinar ýmsu ástæður fyrir henni; og allar voru auðvitað hinum að kenna. Samskiptaleysi og fjarlægð gerðu þeim báðum kleift að herðast í óvildinni og sannfæra sig sjálfa um að lífið væri betra án hins og að vinátta þeirra væri bæði dauð og grafin. Það tók hins vegar ekki langan tíma þegar þeir hittust á ný að finna að nýju sameiginlega strengi. Og eftir smá spjall steig Magic það skref að biðja vin sinn Isiah fyrirgefningar á því að hafa komið illa fram við hann. Við það brast tilfinningastíflan hjá þeim báðum og þeir stóðu tárvotir í faðmlögum í dágóða stund; allt fyrir framan myndavélarnar. Það þurfti ekki orð til að sjá að fyrirgefningin var auðfengin, vináttan var komin aftur og kærleikurinn hafði enn á ný vikið óvildinni úr vegi. Þar með er auðvitað ekki búið að stroka út úr raunveruleikanum þá staðreynd að báðir hafa þeir komið illa fram, sagt ljóta og meiðandi hluti og verið andstyggilegir á ýmsan hátt. Þeir eru báðir sekir og sakbitnir. Og ómögulegt er að reikna það út hvor þeirra hefur gert meira á hlut hins, eða jafna það skor þannig að báðir telji sanngjarnt. Ef undan er skilið einstaka helgifólk þá höfum við öll bæði orðið fyrir óréttlæti og valdið því; við höfum komið illa fram og aðrir hafa komið illa fram við okkur—í okkur kraumar bæði reiði yfir því sem okkur hefur verið gert og samviskubit yfir því sem við höfum gert öðrum. Fólk er flókið og margbreytilegt og lífsgangan er ekki alltaf á beinum eða breiðum vegi. Enginn er fullkominn.Áhugaverð tilraun Máttur fyrirgefningarinnar er kannski einhver mikilvægasti boðskapur kristninnar. Kristur kenndi að bjóða ætti hinn vangann og fyrirgefa nágranna sínum ekki aðeins sjö sinnum, heldur sjö sinnum sjötíu sinnum. Þetta þætti okkur flestum líklega jaðra við geðleysi, enda ber sennilega að taka þessi orð frekar til umhugsunar en sem forskrift. Engu að síður er áherslan á fyrirgefningu í kristninni töluverð stefnubreyting frá því sem boðað er í Gamla testamentinu. Jafnvel þótt „auga fyrir auga“ hafi alls ekki verið boðskapur hefndar, heldur einmitt hóflegra og sanngjarnra refsinga, þá er óhætt að segja að áherslan á fyrirgefningu aðgreini kristnina öðru fremur frá gyðingdómnum sem hún er sprottin af. Ísraelskur vinur minn orðaði það þannig að honum þætti þessi áhersla á fyrirgefningu vera forvitnileg tilraun; en taldi sjálfur að réttlæti væri miklu mikilvægara.Vaggandi vogarskálar Sá er hins vegar vandinn við réttlætið að erfitt getur reynst að meta hvenær tvær misgjörðir jafna hvor aðra út; eða hvenær refsing er nákvæmlega hæfileg til þess að jafna sakir. Fyrir vikið einkennast langvarandi illdeilur og særindi milli fólks og þjóða af því að vogarskálar réttlætisins ná aldrei því friðsæla jafnvægi sem allir geta fellt sig við. Spurningar um refsingu, hefnd, fyrirgefningu og iðrun eru meðal þeirra mikilvægustu og flóknustu í mannlegu samfélagi. Þær eiga við okkur sjálf sem einstaklinga, innan fjölskyldna, milli vina og einnig á opinberum vettvangi—þar sem ríkisvaldinu er falið vald til þess að framkvæma refsingar þótt stundum eigi þær sér stað í formi umfjöllunar eða útskúfunar. Allt er þetta vandmeðfarið og flókið. Engan er hægt að neyða til að fyrirgefa það sem á hlut hans hefur verið gert, og sumum tekst aldrei að fyrirgefa sjálfum sér fyrir það sem þeir hafa gert á hlut annarra. Og fyrir sumar misgjörðir er ótækt annað en að refsa. En í góðu samfélagi eru lærdómur, iðrun og yfirbót er ekki síður mikilvægir þættir í gangverki réttlætisins heldur en refsing og hefnd. Svalandi fyrirgefning Þeir félagar Magic Johnson og Isiah Thomas ákváðu bersýnilega að þeim myndi báðum líða betur ef þeir brytu odd af oflæti sínu og gæfu hvor öðrum upp sakir í stað þess að láta sig dreyma um hefnd og réttlæti. Nema auðvitað að þeir hafi komist að þeim sannleik að þorstanum eftir hefnd verði ekki svalað fullkomlega með fullkominni refsingu heldur með fullkominni fyrirgefningu. Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Þórlindur Kjartansson Mest lesið Valkyrjur: Ekki falla á prófinu! Gunnar Hólmsteinn Ársælsson Skoðun Upplýsingaóreiða og rannsóknir á mettaðri fitu Hópur lækna Skoðun 13,5 milljónir Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun Hvammsvirkjun og meintur orkuskortur Ólafur Páll Jónsson Skoðun Kóngar vímuefnaheimsins Lára G. Sigurðardóttir Skoðun Að vera léttvægur fundinn Guðmunda G. Guðmundsdóttir Skoðun Hvað með það þótt sérfræðingar að sunnan fari í verkfall? Silja Bára Ómarsdóttir Skoðun Halldór 18.01.2025 Halldór Er heimurinn á leið til helvítis? Árni Sigurðsson Skoðun Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun
Skömmu fyrir jól urðu þau tíðindi í Bandaríkjunum að tveir miðaldra menn féllust í faðma, felldu tár og fyrirgáfu hvor öðrum áratugalanga beiskju. Viðburðurinn var svo hjartnæmur og fallegur að myndband af honum dreifðist undurskjótt um heimsbyggðina, þar sem milljónir miðaldra karlmanna horfðu á og felldu kannski sjálfir tár eða sugu að minnsta kosti hressilega upp í nefið. Faðmlag mannanna var tröllslegt, því annar þeirra er 205 sentimetra hár en hinn um 185 og báðir vöðvastæltir fyrrum atvinnumenn í íþróttum og ágætlega dúðaðir af velmegunarspiki eftir áratugina sem liðnir eru frá því þeir lögðu skóna á hilluna. Mennirnir tveir eru meðal frægustu körfuboltakappa níunda áratugarins; Magic Johnson og Isiah Thomas. Þeir voru nánir vinir sem ungir menn, en vinskapur þeirra súrnaði skyndilega fyrir 25 árum af ýmsum ástæðum—og þróaðist út í gagnkvæma fyrirlitningu, svikabrigsl og illmælgi. Þeir félagar settust loks niður og áttu sitt fyrsta samtal í áratugi. Fundur þeirra var fyrir milligöngu fjölda sameiginlegra vina og fjölskyldumeðlima sem öllum fannst orðið tímabært að gefa kærleiknum sem eitt sinn var á milli þeirra tækifæri til þess að feykja burt þeim skýjum sem síðar hrönnuðust upp.Kærleikurinn sigrar Á þeim tíma sem óvináttan stóð gat hvor um sig tínt til hinar ýmsu ástæður fyrir henni; og allar voru auðvitað hinum að kenna. Samskiptaleysi og fjarlægð gerðu þeim báðum kleift að herðast í óvildinni og sannfæra sig sjálfa um að lífið væri betra án hins og að vinátta þeirra væri bæði dauð og grafin. Það tók hins vegar ekki langan tíma þegar þeir hittust á ný að finna að nýju sameiginlega strengi. Og eftir smá spjall steig Magic það skref að biðja vin sinn Isiah fyrirgefningar á því að hafa komið illa fram við hann. Við það brast tilfinningastíflan hjá þeim báðum og þeir stóðu tárvotir í faðmlögum í dágóða stund; allt fyrir framan myndavélarnar. Það þurfti ekki orð til að sjá að fyrirgefningin var auðfengin, vináttan var komin aftur og kærleikurinn hafði enn á ný vikið óvildinni úr vegi. Þar með er auðvitað ekki búið að stroka út úr raunveruleikanum þá staðreynd að báðir hafa þeir komið illa fram, sagt ljóta og meiðandi hluti og verið andstyggilegir á ýmsan hátt. Þeir eru báðir sekir og sakbitnir. Og ómögulegt er að reikna það út hvor þeirra hefur gert meira á hlut hins, eða jafna það skor þannig að báðir telji sanngjarnt. Ef undan er skilið einstaka helgifólk þá höfum við öll bæði orðið fyrir óréttlæti og valdið því; við höfum komið illa fram og aðrir hafa komið illa fram við okkur—í okkur kraumar bæði reiði yfir því sem okkur hefur verið gert og samviskubit yfir því sem við höfum gert öðrum. Fólk er flókið og margbreytilegt og lífsgangan er ekki alltaf á beinum eða breiðum vegi. Enginn er fullkominn.Áhugaverð tilraun Máttur fyrirgefningarinnar er kannski einhver mikilvægasti boðskapur kristninnar. Kristur kenndi að bjóða ætti hinn vangann og fyrirgefa nágranna sínum ekki aðeins sjö sinnum, heldur sjö sinnum sjötíu sinnum. Þetta þætti okkur flestum líklega jaðra við geðleysi, enda ber sennilega að taka þessi orð frekar til umhugsunar en sem forskrift. Engu að síður er áherslan á fyrirgefningu í kristninni töluverð stefnubreyting frá því sem boðað er í Gamla testamentinu. Jafnvel þótt „auga fyrir auga“ hafi alls ekki verið boðskapur hefndar, heldur einmitt hóflegra og sanngjarnra refsinga, þá er óhætt að segja að áherslan á fyrirgefningu aðgreini kristnina öðru fremur frá gyðingdómnum sem hún er sprottin af. Ísraelskur vinur minn orðaði það þannig að honum þætti þessi áhersla á fyrirgefningu vera forvitnileg tilraun; en taldi sjálfur að réttlæti væri miklu mikilvægara.Vaggandi vogarskálar Sá er hins vegar vandinn við réttlætið að erfitt getur reynst að meta hvenær tvær misgjörðir jafna hvor aðra út; eða hvenær refsing er nákvæmlega hæfileg til þess að jafna sakir. Fyrir vikið einkennast langvarandi illdeilur og særindi milli fólks og þjóða af því að vogarskálar réttlætisins ná aldrei því friðsæla jafnvægi sem allir geta fellt sig við. Spurningar um refsingu, hefnd, fyrirgefningu og iðrun eru meðal þeirra mikilvægustu og flóknustu í mannlegu samfélagi. Þær eiga við okkur sjálf sem einstaklinga, innan fjölskyldna, milli vina og einnig á opinberum vettvangi—þar sem ríkisvaldinu er falið vald til þess að framkvæma refsingar þótt stundum eigi þær sér stað í formi umfjöllunar eða útskúfunar. Allt er þetta vandmeðfarið og flókið. Engan er hægt að neyða til að fyrirgefa það sem á hlut hans hefur verið gert, og sumum tekst aldrei að fyrirgefa sjálfum sér fyrir það sem þeir hafa gert á hlut annarra. Og fyrir sumar misgjörðir er ótækt annað en að refsa. En í góðu samfélagi eru lærdómur, iðrun og yfirbót er ekki síður mikilvægir þættir í gangverki réttlætisins heldur en refsing og hefnd. Svalandi fyrirgefning Þeir félagar Magic Johnson og Isiah Thomas ákváðu bersýnilega að þeim myndi báðum líða betur ef þeir brytu odd af oflæti sínu og gæfu hvor öðrum upp sakir í stað þess að láta sig dreyma um hefnd og réttlæti. Nema auðvitað að þeir hafi komist að þeim sannleik að þorstanum eftir hefnd verði ekki svalað fullkomlega með fullkominni refsingu heldur með fullkominni fyrirgefningu. Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins.
Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun
Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun