Gamla Kaupfélagshúsið á Höfn er nú smiðja skapandi greina þar sem frumkvöðlum býðst aðstaða til að láta ólíkar hugmyndir verða að veruleika. Tónlistarmenn byrjuðu á því að nýta yfirborðsfræsara til að skera út einföld hljóðfæri í tré en fóru svo að bæta við flóknari hlutum, eins og rafrásum. Og nú hefur þetta þróast upp í smíði frumlegra tæknihljóðfæra.
Í viðtalinu sýnir Vilhjálmur Magnússon, forstöðumaður Vöruhúss og FabLab-smiðju Hornafjarðar, nokkur dæmi um hátæknigítara. Þar má sjá gítar með ljósnæmum skynjurum í hálsinum, þar sem gítarleikarinn getur breytt hljóðunum einfaldlega með því að veifa höndunum yfir skynjurunum. Annar gítar er með snertiskjá sem gítarleikarinn getur snert og breytt þannig hljóðum. Sá þriðji er með led-ljósum sem breytast í samræmi við tóna gítarsins.

Fjallað var um mannlíf á Hornafirði í þættinum „Um land allt” á Stöð 2 í kvöld.