Erlent

Puigdemont gaf sig fram við lögreglu í Belgíu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Carles Puigdemont, fyrrverandi forseti heimastjórnar Katalóníu, flúði til Belgíu í byrjun mánaðar.
Carles Puigdemont, fyrrverandi forseti heimastjórnar Katalóníu, flúði til Belgíu í byrjun mánaðar. Vísir/AFP
Carles Puigdemont, fyrrverandi forseti heimastjórnar Katalóníu, hefur gefið sig fram við lögreglu í Belgíu. Fjórir fyrrverandi ráðherrar í héraðsstjórn Katalóníu gáfu sig einnig fram, að því er fréttastofa BBC hefur eftir belgískum saksóknara.

Ríkissaksóknari Spánar fór fram á evrópska handtökuskipun á hendur Puigdemont og fjórum fyrrverandi ráðherrum héraðsstjórnar Katalóníu á föstudag. Puigdemont flúði, ásamt ráðherrunum, til Belgíu í blálok síðasta mánaðar en hann sagðist ekki myndu snúa aftur til Spánar nema að honum yrði tryggð sanngjörn málsmeðferð.

Í morgun gaf Puigdemont sig hins vegar fram í fylgd lögfræðinga sinna við lögregluyfirvöld í Belgíu. Með honum gáfu sig fram fjórir fyrrverandi ráðherrar héraðsstjórnarinnar, Meritxell Serret, Antoni Comín, Lluís Puig og Clara Ponsatí. Þau eru m.a. sökuð um tilraun til uppreisnar en Puigdemont á yfir höfði sér allt að þrjátíu ára fangelsi.

Gilles Dejemeppe, staðgengill saksóknara í Belgíu, ræddi við fréttamenn eftir að Puigdemont og ráðherrar hans gáfu sig fram við lögreglu í dag.Vísir/AFP
Dómari mun þurfa að taka ákvörðun um hvað aðhafst verði í málinu innan 24 klukkustunda, að því er haft var eftir talsmanni saksóknara í Belgíu.

Puigdemont lýsti yfir sjálfstæði Katalóníu mánuði eftir að gengið var til kosninga en Spánverjar höfnuðu yfirlýsingunni. Þá sakaði Puigdemont Spánverja um að beita öfgafullri hörku í aðgerðum og orðræðu í kjölfar kosninganna og neitaði að draga yfirlýsinguna til baka. Þann 21. október síðastliðinn samþykkti forsætisráðherra Spánar, Mariano Rajoy, að svipta héraðið sjálfstjórn.


Tengdar fréttir

Puigdemont vill yfirheyrslu í Belgíu

Yfirheyra ætti Carles Puigdemont, brottrekinn forseta héraðsstjórnar Katalóníu, í Belgíu. Þar er Puigdemont nú staddur en þetta sagði Paul Bekaert, lögmaður hans, í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×