Erlent

Vill ákæra Katalóna fyrir uppreisn

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
José Manuel Maza, ríkissaksóknari Spánar.
José Manuel Maza, ríkissaksóknari Spánar. vísir/afp
José Manuel Maza, ríkissaksóknari Spánar, kallaði í gær eftir því að leiðtogar Katalóníuhéraðs yrðu ákærðir, meðal annars fyrir að efna til uppreisnar. Þrjátíu ára fangelsisvist gæti því beðið leiðtoganna. Spænsk lög kveða á um að nú skuli dómstólar taka ósk Maza fyrir.

Maza sagði á blaðamannafundi að leiðtogarnir, meðal annars Carles­ Puigdemont, fyrrverandi forseti héraðsstjórnarinnar, hefðu notað opinbert fé til þess að halda ólöglegar kosningar. Puigdemont og öðrum var úthýst á föstudag þegar spænsk yfirvöld sviptu héraðið sjálfsstjórn.

Puigdemont viðurkennir hins vegar ekki ákvörðun Spánverja og telur sig enn í embætti. Hefur hann sagt að einungis Katalónar geti tekið þá ákvörðun nú þegar héraðið hefur lýst yfir sjálfstæði. Blaðamaður TV3Cat tísti því í gær að Puig­demont væri staddur á öruggum stað, í burtu frá spænskum yfirvöldum, og samkvæmt BBC er hann staddur í Belgíu.

Enn hefur ekkert sjálfstætt ríki viðurkennt sjálfstæði Katalóníu. Það hafa Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið ekki heldur gert. Fjöldi ríkja hefur þó ekki enn tekið afstöðu til sjálfstæðis héraðsins, meðal annars Ísland. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×