Erlent

Spænska stjórnin leysir upp héraðsstjórn Katalóníu

Kjartan Kjartansson skrifar
Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, tilkynnti í kvöld að hann myndi víkja héraðsstjórn Katalóníu og forseta hennar til hliðar og leysa upp héraðsþingið. Boðað verður til nýrra héraðskosninga 21. desember.

Í ljósi tilrauna leiðtoga Katalóníu til að lýsa yfir sjálfstæði beitti Rajoy 155. grein stjórnarskrár Spánar til að taka yfir stjórn sjálfsstjórnarhéraðsins. Efri deild spænska þíngsins veitti honum heimild til þess fyrr í dag. Jafnframt veik Rajoy héraðslögreglustjóranum í Katalóníu til hliðar.

„Við teljum brýnt að hlusta á borgara Katalóníu, á þá alla, svo að þeir geti ákveðið framtíð sína og að enginn geti farið á svig við lögin í nafni þeirra,“ sagði Rajoy í sjónvarpsávarpi í kvöld, að því er segir í frétt Reuters.

Ríkisstjórnin ákvað jafnframt að loka sendiráðum Katalóníu erlendis og leysa sendifulltrúa héraðsins frá störfum.

Katalónska héraðsþingið samþykkti fyrr í dag að lýsa yfir sjálfstæði. Þúsundir manna fögnuðu sjálfstæðisyfirlýsingunni á götum úti í Katalóníu, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Í frétt spænska blaðsins El País kemur fram að ríkisstjórn Rajoy hafi samþykkt að skjóta samþykkt katalónska þingsins til stjórnlagadómstóls Spánar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×