Erlent

300.000 mótmæltu í Barcelona í dag

Kjartan Kjartansson og Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifa
Spænski fáninn var áberandi í mótmælunum í Barcelona í dag.
Spænski fáninn var áberandi í mótmælunum í Barcelona í dag. Vísir/EPA
Hundruð þúsund Katalóníubúa sem eru andsnúnir sjálfstæði héraðsins komu saman í Barcelona í dag. Sumir þeirra kröfðust þess að Carles Puigdemont, fyrrverandi forseti héraðsstjórnarinnar, yrði fangelsaður. Skoðanakannanir benda til þess að naumur meirihluti Katalóna sé mótfallinn sjálfstæði.

Ríkisstjórn Spánar leysti héraðsþing og stjórn Katalóníu upp á föstudag í kjölfar nokkurra vikna uppnáms vegna tilrauna leiðtoga sjálfsstjórnarhéraðsins til að lýsa yfir sjálfstæði. Boðaði Mariano Rajoy forsætisráðherra til héraðsþingskosninga 21. desember.

Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins BBC mótmæltu í kringum 300.000 manns sjálfstæðisáformum fyrrverandi héraðsstjórnarinnar í Barcelona í dag. Skipuleggjendur mótmælanna og ríkisstjórnin í Madrid fullyrða hins vegar að fleiri en milljón manns hafi tekið þátt í þeim.

Mótmælendur sem BBC ræddi við í dag höfðu sumir áhyggjur af því að afleiðingarnar af sjálfstæðisbaráttunni muni hafa áhrif á sjálfsstjórn Katalóníu í mörg ár. 

Meirihluti gegn sjálfstæði

Puigdemont kallar sig enn forseta héraðsstjórnarinnar þrátt fyrir að Rajoy fari nú í reynd með málefni héraðsins. Fráfarandi héraðsstjórnin hefur hvatt til friðsamlegrar óhlýðni við fyrirskipanir landsstjórnarinnar í Madrid. Talsmaður landsstjórnarinnar segir að Puigdemont verði leyft að bjóða sig fram í kosningunum í desember.

Eins og kom fram á Vísi fyrr í dag bendir ný skoðanakönnun til þess að flokkar sem styðja sjálfstæði Katalóníu missi meirihluta sinn á héraðsþingi. Mjótt er þó á mununum á milli sjálfstæðissinna og þeim sem vilja að héraðið verði áfram hluti af Spáni.

Önnur könnun sem dagblaðið El País birti bendir til að 52% Katalóna styðji ákvörðun landsstjórnarinnar um að leysa upp héraðsþingið og svipta Puigdemont völdum á móti 43% sem séu andsnúin. Þá sögðust 55% svarenda mótfallin sjálfstæðisyfirlýsingu héraðsþingsins frá því á föstudag en 41% fylgjandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×