Tölvuþrjótar frá Norður-Kóreu brutust inn í gagnabanka varnarmálaráðuneytis Suður-Kóreu og stálu gögnum sem tengjast hernaðaráætlunum bæði Suður-Kóreu og Bandaríkjanna. Rhee Cheol-hee, suðurkóreskur þingmaður, staðfesti innbrotið í gær en Norður-Kórea hefur neitað öllum ásökunum.
Ráðuneytið neitaði að tjá sig um árásina í gær en um er að ræða 235 gígabæt af gögnum. Á meðal þess sem stolið var eru áætlanir ef til stríðs kemur á Kóreuskaga, áætlanir um að ráða Kim Jong-un einræðisherra af dögum og samskipti æðstu hershöfðingja Bandaríkjanna og Suður-Kóreu.
Árásin var gerð í september á síðasta ári en samkvæmt Yonhap-fréttastofunni í Seúl hafa slíkar árásir verið tíðar. Jafnframt heldur miðillinn því fram að Norður-Kórea njóti aðstoðar vel þjálfaðra hakkara erlendis, meðal annars í Kína.
Afskaplega ólíklegt er að þessi tíðindi verði til þess að leysa úr spennunni sem hefur stigmagnast á Kóreuskaga undanfarna mánuði, en Bandaríkjaforseti og einræðisherra Norður-Kóreu hafa kallað hvor annan geðsjúklinga og hótað árásum og gjöreyðingu.
