Flugi Wow Air til Cork á Írlandi á morgun hefur verið aflýst sökum fellibylsins Ófelíu. Ekki er búist við því að veðrið hafi áhrif á áætlunarflug til og frá Dublin.
Þá hefur skólahald verið fellt niður á mörgum svæðum og skólum á Norður-Írlandi ráðlagt að gera slíkt hið sama.
Veðurstofan á Írlandi og Bretlandi hafa gefið út viðvaranir vegna fellibylsins Ófelíu sem mun skella á Írland á morgun. Ófelía mun að öllum líkindum ganga á land á suðvestanverðu Írlandi, fara yfir eyjuna og svo yfir norðurhluta Skotlands.
Stjórnvöld á Írlandi hafa boðað til neyðarfundar vegna komu Ófelíu, sem ku vera mesta óveður sem hefur skollið á Írland í hálfa öld. Hæsta viðbúnaðarstig gildir frá því sex í fyrramálið til miðnættis.
Íbúar mega búast við rafmagnsleysi, miklum öldugangi og röskun á samgöngum þegar óveðrið gengur á land.
Flugi til Cork aflýst vegna Ófelíu
Ingvar Þór Björnsson skrifar
