Carles Puigdemont leiðtogi Katalóníu hefur nú aðeins eina klukkustund til að gefa það skýrt út að hann hafi ekki lýst yfir sjálfstæði Katalóníu.
Geri hann það ekki munu yfirvöld í Madríd virkja 155 grein stjórnarskrárinnar sem myndi taka sjálfstjórnarvald Katalóna úr höndum þeirra og færa stjórn héraðsins til höfuðborgarinnar Madríd.
Puigdemont skrifaði undir sjálfstæðisyfirlýsingu í byrjun mánaðarins en sagði strax að hún tæki ekki gildi fyrr en viðræður hefðu farið fram við yfirvöld á Spáni. Forsætisráðherrann Mariano Rajoy gaf lítið fyrir það og krafðist skýringa, ella yrði sjálfstjórnin afturkölluð.
„Það er ekki flókið að svara spurningunni: Hefur Katalónía lýst yfir sjálfstæði? Því ef hún hefur gert það þá getur ríkisstjórnin aðeins brugðist við með einum hætti, ef ekki þá getum við talað saman,“ sagði forsætisráðherrann í gær.
Mögulega með eitt tromp á hendi
Ekki er búist við viðbrögðum frá Puigdemont og því líklegt að Rajoy virkji stjórnarskrárgreinina. Gerist það er búist við að Puigdemont lýsi einhliða yfir sjálfstæði Katalóníu í kjölfarið.
Þá telur breska ríkisútvarpið að Katalóninn gæti haft einn ás í erminni. Hann gæti boðað til nýrra kosninga í héraðinu og þá myndi, að sögn heimildarmanna útvarpsins úr röðum stjórnvalda í Madríd, ríkisstjórn Spánar ekki grípa til 155 greinarinnar.
Það verður þó að teljast ólíklegt að Puigdemont fari þá leið enda nýtur hún ekki stuðnings meðal samstarfsmanna hans í hérðasstjórninni. „Kosningar eru ekki til umræðu núna,“ lét utanríkisráðherra Katalóníu hafa eftir sér í gær.
Sama hver niðustaðan verður má ætla að átök brjótist út í héraðinu - og þá ekki síst í Barselóna.
Klukkustund í ögurstund

Tengdar fréttir

Tveir þekktir sjálfstæðissinnar handteknir
Dómstóll á Spáni hefur úrskurðað tvo framámenn í sjálfstæðisbaráttu Katalóna í varðhald.

Ríkisstjórnin harmar óskýrmælgi Katalóna
Carles Puigdemont, forseti héraðsstjórnar Katalóníu, hefur frest fram á fimmtudag til að skýra mál sitt varðandi sjálfstæðisyfirlýsingu Katalóníu.