Í framhaldinu var Íslendingur, sem bjó í íbúðinni ásamt konunni, leiddur út. Þetta hefur Vísir eftir sjónarvottum sem voru fjölmargir á Hagamel í gærkvöldi.

Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu sem stýrir rannsókninni, hefur sagt í samtali við Vísi að aðild mannanna að dauða konunnar sé talinn mismikill.
Farið verður fram á gæsluvarðhald yfir erlenda manninum í dag. Þeim íslenska verður sleppt innan þeirra 24 klukkustunda sem lögregla má hafa fólk í haldi án varðhaldsúrskurðar.
„Við höfum verið að yfirheyra í nótt og í morgun. Erum að reyna að greina aðild að málinu sem virðist vera misjöfn,“ segir Grímur í samtali við fréttastofu.
„Við vitum nokkuð um það hver aðild þeirra er. Við erum að vinna áfram í því að skýra það.“

Lögreglu barst tilkynning tuttugu og tvær mínútur í tíu í gærkvöldi vegna mikilla láta sem bárust úr íbúðinni á Hagamelnum. Þótti þeim sem tilkynntu augljóst að um líkamsárás hefði verið að ræða. Í framhaldinu mættu fulltrúar lögreglu og sérsveitar á staðinn auk þess sem sjúkrabílar voru sendir á svæðið.
Konan var samstundis flutt af vettvangi í sjúkrabíl en hún lést af völdum áverka sinna. Talið er að einhvers konar vopni eða áhaldi hafi verið beitt við árásina. Lögregla hefur ekki viljað gefa upp hvers kyns vopnið sé. Mennirnir tveir voru handteknir.
Annars vegar Íslendingur sem býr í íbúðinni ásamt konunni og hins vegar erlendur karlmaður á fertugsaldri.

Fjölmargir íbúar á Melunum urðu vitni að því þegar maðurinn var leiddur út úr húsinu í járnum. Lét hann öllum illum látum og þurfti lögregla að beita piparúða til að hemja manninn. Hann var á nærfötunum einum fata og með blóð á líkama sínum. Í framhaldinu var Íslendingurinn leiddur af vettvangi.
Samkvæmt heimildum Vísis bjuggu þrír í íbúðinni á Hagamel sem er lítil risíbúð, um þrjátíu fermetrar. Íbúðinni er skipt niður í minni einingar sem hver fyrir sig er leigð út. Konan, maðurinn og þriðja kona sem er erlendur námsmaður, búsett á Íslandi, deila íbúðinni. Konan mun ekkert tengjast málinu.
Þeir sem til konunnar þekktu og Vísir hefur rætt við bera henni vel söguna. Hún hafi búið á Íslandi undanfarin ár og meðal annars starfað við ræstingar á hótelum víða um land. Þá hafa nágrannar ekki orðið varir við neina óreglu í íbúðinni, læti eða neitt í þeim dúrnum.