Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, hét því í gær að halda tilraunum og uppbyggingu ríkisins áfram og sagði Norður-Kóreu nærri því að vera í hernaðarlegu jafnvægi við Bandaríkin.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði á Twitter í dag að hann hefði rætt við Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu, og meðal annars hefðu þeir rætt um „Eldflaugamanninn“, sem er væntanlega Kim Jong-un, og langar biðraðir eftir eldsneyti í Norður-Kóreu.
I spoke with President Moon of South Korea last night. Asked him how Rocket Man is doing. Long gas lines forming in North Korea. Too bad!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) September 17, 2017
H.R. McMaster, þjóðaröryggisráðgjafi Trump, sagði blaðamönnum í dag að Norður-Kórea þyrfti að láta af tilraunum sínum og einnig losa sig við kjarnorkuvopn ríkisins. Trump myndi ekki sætta sig við það að Bandaríkjunum yrði ógnað með kjarnorkuvopnum.
Þá sagði hann að ríkisstjörnin héldi öllum möguleikum opnum þegar kæmi að Norður-Kóreu og þar á meðal væru hernaðaraðgerðir.
Sjá einnig: Lengsta eldflaugaskotið hingað til
James Mattis, varnarmálaráðherra, sló á svipaða strengi í dag og sagði að Bandaríkin myndu bregðast við öllum ógnunum með gífurlegum hernaðaraðgerðum.
Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagðist vera að bíða eftir merki frá Norður-Kóreu um að þeir væru tilbúnir til viðræðna.
„Það eina sem þeir þurfa að gera er að láta okkur vita að þeir vilji tala og hætta þessum tilraunum, hætta þessum ógnunum og þannig getum við dregið úr spennunni og áróðrinum, sagði Tillerson, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.
Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði engan vilja stríð á Kóreuskaganum. Þó væri ekki langt þar til að engir aðrir möguleikar væru í boði.
„Ef þetta virkar ekki, mun Mattis sjá um þetta,“ sagði Haley við CNN í dag. Viðtalið má sjá hér að neðan.