Í frétt CNN-fréttastöðvarinnar kemur fram að veðurfræðingar búist við því að María verði fjórða eða fimmta stigs fellibylur þegar hún nálgast Púertó Ríkó og Jómfrúareyjar.
María er nú á ferð um norðaustanvert Karíbahafi og nær vindrhraði hennar um 71 m/s. Búist er við því að hún nálgist Jómfrúareyjar og Púertó Ríkó í kvöld og á morgun. Þá verði hún gríðarlega hættulegur fjórða eða fimmta stigs fellibylur.
Varað er við lífshættulegum skyndiflóðum og aurskriðum af völdum úrhellis sem fylgir Maríu á Hléborðseyjum, Púertó Ríkó, og Bresku og Bandarísku Jómfrúareyjum.
Here are the Key Messages for #Maria advisory 13. pic.twitter.com/Qolhe54VA7
— NHC Atlantic Ops (@NHC_Atlantic) September 19, 2017
Fellibylsviðvörun er í gildi á Gvadelúpeyjum, Dóminíku, St. Kitts og Nevis, Montserrat, Jómfrúareyjum, Púertó Ríkó, Kúlebra og Víkes.
Rétt er nú tekið að birta af degi á Dóminíku og tjónið af völdum Maríu að koma í ljós. Vísbendingar eru þó um að mikil eyðilegging hafi orðið þar. Þannig blés þakið af setri forsætisráðherra landsins.