Erlent

Sagðir undirbúa frekari eldflaugaskot

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá æfingum Suður-Kóreu í kjölfar tilraunasprengingarinnar í gær.
Frá æfingum Suður-Kóreu í kjölfar tilraunasprengingarinnar í gær. Vísir/EPA
Yfirvöld Suður-Kóreu segja útlit fyrir að nágrannar sínir í noðri ætli sér að skjóta enn einn eldflauginni á loft á næstunni. Mögulega sé um að ræða langdræga eldflaug. Forsvarsmenn leyniþjónustu Suður-Kóreu munu hafa sagt þingmönnum í nótt að líklegt væri að eldflaug yrði skotið á loft þann 10. október, í tilefni af afmæli Verkamannaflokks Norður-Kóreu.

Aðfararnótt sunnudags sprengdu Norður-Kóreumenn kjarnorkusprengju í sjötta sinn, sem þeir segja að hafi verið vetnissprengja. Skömmu áður höfðu yfirvöld ríkisins haldið því fram að þeir hefðu þróað öfluga vetnissprengju sem hægt væri að koma fyrir í langdrægum eldflaugum.

Vetnissprengjur nota litla kjarnorkusprengju sem hvellettu til að koma enn stærri sprengingu af stað.Vísir/Graphicnews
Færast nær markmiðum sínum

Norður-Kórea hefur ítrekað skotið eldflaugum á loft í trássi við ályktanir Sameinuðu þjóðanna og nýlega skutu þeir eldflaug yfir norðurhluta Japan. Þá hafa yfirvöld í Pyongyang hótað því að skjóta eldflaugum að Gvam.

Yfirlýst markmið þeirra er að þróa kjarnorkuvopn og eldflaugar sem borið geta þau vopn til meginlands Bandaríkjanna.

Neyðarfundur verður haldinn í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í dag.

Vilja auka hernaðargetu

Viðræður standa nú yfir á milli Suður-Kóreu og Bandaríkjanna um að flugmóðurskipum Bandaríkjanna verði siglt til Kóreuskagans og að sprengjuflugvélum verði flogið á svæðið. Þá eru Suður-Kóreumenn að vinna í því að auka getu sína til að skjóta eldflaugar nágranna sinna niður.

Það er að klára uppsetningu THAAD-kerfisins svokallaða sem meðal annars Kínverjar og Rússar hafa mótmælt. Því er ætlað að skjóta niður eldflaugar.

Varnarmálaráðherra Suður-Kóreu, Song Young-moo, sagði í nótt að þjóðaröryggisráð Suður-Kóreu væri byrjað að hallast að því að bæta stöðu ríkisins hernaðarlega í stað frekari viðræðna.

Eftir tilraunasprengingu Norður-Kóreu héldu Suður-Kóreumenn heræfingar þar sem þeir gerðu ímyndaðar árásir á eldflaugaskotpalla Norður-Kóreu. Til stendur að fjölga æfingum herafla Suður-Kóreu á næstu vikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×