Irma hefur misst nokkurn styrk og er nú flokkuð sem fjórða stigs fellibylur. Fellibylurinn gengur nú yfir hafsvæði norður af austurhluta Kúbu og stefnir á Flórída.
Tilkynnt hefur verið um mikla eyðileggingu á nokkrum eyjum í Karíbahafi. Staðfest er að fjórtán manns hafa látið lífið í hamförunum, flestir á eyjunni Sankti Martin.
Fellibylurinn hefur herjað á íbúa Turks- og Caicoseyja síðustu klukkustundirnar, en umfang eyðileggingar þar liggur enn ekki fyrir.
Yfirvöld á Flórída hafa beint þeim fyrirmælum til 500 þúsund íbúa á skaganum að yfirgefa heimili sín, en von er á Irmu þangað á sunnudag. Þrátt fyrir að Irma sé nú flokkuð sem fjórða stigs fellibylur þá sé hún enn talin „gríðarlega hættuleg“.
Þannig sé búist við að öflugustu vindhviðurnar kunni að verða allt að 75 metrar á sekúndu.
Rauði krossinn óttast að sjúkdómar kunni að breiðast út á svæðum þar sem vatnshreinsunarstöðvar hafa eyðilagst í Karíbahafi.
