Á sama tíma fréttir berast af því að Norður-Kóreumenn hafi skotið eldflaug yfir Japan hefur það spurst út að einræðisherra landsins, Kim Jong-un, hafi eignast sitt þriðja barn.
Ekki er mikið vitað um einkalíf forsetans og hefur ekki sést til eiginkonu Kim, Ri Sol-ju, í lengri tíma.
Suðurkóreska fréttastofan Yonhap segir frá því að þriðja barn hjónanna hafi komið í heiminn í febrúar síðastliðinn. Fréttastofan hefur þetta eftir suðurkóreskum þingmönnum sem hafa fengið upplýsingarnar frá leyniþjónustu landsins.
Kim og Ri gengu í hjónaband árið 2009 og eignuðust sitt fyrsta barn ári síðar. Annað barn kom svo í heiminn árið 2013.
Bandaríski körfuboltamaðurinn Dennis Rodman, sem er vinur Kim, greindi heimsbyggðinni frá öðru barni norðurkóreska leiðtogans og Ri, þar sem hann sagðist hafa fengið að halda á stúlkunni, Ju-Ae, í heimsókn sinni til Norður-Kóreu.
