Ríkisfjölmiðlar í Norður-Kóreu segja að her landsins sé að leggja lokahönd á áætlun um að skjóta fjórum eldflaugum að Kyrrahafseyjunni Gvam þar sem Bandaríkjamenn eru með herstöðvar. Áætlunin verði send til Kim Jong-un um miðjan mánuðinn.
Samkvæmt áætluninni verður fjórum Hwasong-12-eldflaugum skotið frá Norður-Kóreu, yfir Japan og þær látnar lenda í hafinu 30-40 kílómetrum undan ströndum Gvam, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Þá kallaði ríkisfréttastofan KCNA hótanir Donalds Trump Bandaríkjaforseta í garð Norður-Kóreumanna „þvælu.“
„Skynsamlegar viðræður eru ekki mögulegar við náunga sem er svo skyni skroppinn og aðeins ítrasta valdbeiting virkar á hann,“ sagði ríkisfjölmiðillinn.
Orð Trump um að hann muni mæta Norður-Kóreumönnum með „eld og heift“ sem jarðarbúar hafi aldrei séð áður láti þeir ekki af hótunum í garð Bandaríkjanna hafa verið túlkuð sem hótun um að beita kjarnavopnum.
Í tísti í gær sagði Trump ennfremur að kjarnorkuvopnabúr Bandaríkjanna væri öflugra en nokkru sinni fyrr.
James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í gær að stjórnvöld í Pjongjang yrðu algerlega ofurliði borin í stríði gegn Bandaríkjamönnum og bandamönnum þeirra.
Norður-Kóreumenn tilbúnir í eldflaugaárás á Gvam von bráðar

Tengdar fréttir

Íbúar Gvam áhyggjufullir vegna Norður-Kóreu
Íbúar eyjunnar litlu eru um 163 þúsund og eru þau bandarískir ríkisborgarar og þar halda Bandaríkin út nokkrum herstöðvum.

Bandaríkjamenn munu verja sig og sína
Norður-Kórea hótar að ráðast á bandarísku eyjuna Gvam. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir að Bandaríkin muni verja sig og sína bandamenn. Nýjar langdrægar eldflaugar Norður-Kóreumanna gætu náð allt til New York.

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna gerir lítið úr ógn af Norður-Kóreu
Engin breyting hefur orðið á ástandi mála á Kóreuskaga þrátt fyrir orðaskak Donalds Trump og stjórnvalda í Norður-Kóreu. Trump hefur verið sakaður um að hóta kjarnorkustríði.