Er enginn lífsstílsáhrifavaldur
„Mér datt strax í hug að þetta væri einhver ruglingur,“ segir Marta María Árnadóttir ferðaráðgjafi og henni er skemmt. „Ég er ekki þekkt fyrir að vera einhver áhrifavaldur eða hvað þetta kallast. Og er ekki sú virkasta á samfélagsmiðlum.“
Þegar Mörtu Maríu barst boðskortið á þennan viðburð, sem samkvæmt heimildum Vísis er slegist um að vera boðið á, datt henni strax í hug að boðskortið væri ætlað nöfnu hennar Jónasdóttur, sem reyndar er fjarskyld frænka hennar. „Ég þekki hana ekki neitt. Og, nei, ég geri ekki ráð fyrir að mæta. Það væri gaman en ég verð fyrir vestan,“ segir Marta María sem er að fara á „road trip“ um Vestfirði ásamt vinkonu sinni. „Partíið og áhrifavaldarnir verða að vera án mín í þetta skiptið.“
Hlýtur að vera efst á öllum slíkum listum
Hin Marta María, sem er ólíkt þekktari, segir að sér hafi nú borist boðskortið góða.
„Mér var boðið en boðskortið mitt fór víst á nöfnu mína sem er fædd 1993,“ segir lífsstílsdrottningin og henni er dillað. „Ég er komin með mitt í hendur.“

Maður hefði ætlað að þú værir efst á öllum slíkum listum?
„Já, maður hefði haldið það. Að stærsti lífsstílsvefur á Íslandi væri í fyrsta sæti,“ gantast Marta María og vísar til starfa sinna við mbl. „Mér fannst þetta fyndið.“
Óskandi að góða verðið skili sér til Íslands
Mörtu Maríu Jónasdóttur líst mjög vel á opnun H&M á Íslandi.
„Þetta er eitthvað sem flest allir hafa beðið eftir, held ég.“ Hún telur ekki úr vegi að ætla að þessi opnun muni marka tímamót og jafnvel verða eitthvað í líkingu við Costco-fárið sem vart sér fyrir endann á hér á Íslandi.
„Mér þykir það ekki ólíklegt. Það sem fólk er líka spennt að sjá er hvort góða verðið í H&M skili sér til Íslands. Það væri óskandi fyrir neytendur.“