Nú þegar eru komnir jafn margir bílar á bílastæðið hjá Landeyjahöfn og voru alla verslunarmannahelgina í fyrra. Lögreglan á Suðurlandi staðfestir þetta. Gríðarlega mikil umferð er fyrir austan fjall samkvæmt Lögreglunni á Suðurlandi. Umferðin jókst mikið eftir hádegi.
„Við vorum að heyra núna neðan úr Landeyjahöfn. Þar segja þeir að bílarnir sem eru komnir þangað núna séu jafn margir og var alla þjóðhátíð í fyrra,“segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Selfossi.
„Þannig að það er orðið ansi mikið og það á eftir að sigla í allan dag,“ bætir Sveinn við.
Sveinn segir að búið sé að stöðva marga og þegar hafa verið teknir 20 manns fyrir brot á umferðarlögum. Aðallega fyrir hraðakstur.
Sveinn segir stemmninguna hjá fólki hafa verið mjög góða og allt hafi gengið vel.

