Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa þróað og framleitt kjarnorkuvopn sem koma megi fyrir í langdrægum eldflaugum. Um er að ræða mikilvægt skref í kjarnorku- og eldflaugaáætlun einræðisríkisins. Þetta er mat starfsmanna leyniþjónusta Bandaríkjanna í leynilegri skýrslu, samkvæmt frétt Washington Post.
Varnarmálaráðuneyti Japan hefur komist að sömu niðurstöðu.
Í síðasta mánuði kom út skýrsla í Bandaríkjunum þar sem áætlað var að yfirvöld Norður-Kóreu hefðu byggt 60 kjarnorkusprengjur. Þar að auki hefur verið áætlað að Norður-Kóreumenn hafi náð gífurlegum árangri í þróun langdrægra eldflauga og að þeir gætu mögulega byggt örugga og áreiðanlega eldflaug sem hægt væri að skjóta að gervöllum Bandaríkjunum á næsta ári.
Verulegum þrýstingi hefur verið beitt gagnvart Norður-Kóreu, en yfirvöld þar hafa gefið í skyn að þeir muni ekki láta undan.
Yfirvöld Bandaríkjanna hafa miklar áhyggjur af þróuninni og hefur Donald Trump, forseti, heitið því að Norður-Kóreu verði ekki gert kleift að ógna Bandaríkjunum með kjarnorkuvopnum. Undanfarnar vikur hafa tvær tilraunir með langdrægar eldflaugar verið gerðar í Norður-Kóreu.

