KR, KA og Grindavík skoruðu öll mörk í uppbótartíma í leikjum sínum í 2. umferð Pepsi-deildar karla. KR og Grindavík tryggðu sér sigur en KA-menn tryggðu sér jafntefli á heimavelli Íslandsmeistaranna.
Vísir hefur sett saman myndband með þessum dramatísku mörkum og við höfum reiknað út hversu mikið var í raun eftir af leiknum þegar mörkin duttu inn á síðustu stundu í þessum leikjum.
Stefán Snær Geirmundsson klippti saman upptökur af mörkunum þremur og setti líka inn skeiðklukku sem sýnir hversu í raun stuttan tíma hin liðin fengu til að svara. Víkingar fengu lengsta tímann eða 32 sekúndur og þeir komust í gott færi til að svara en tókst ekki að skora.
Dómararnir flautuðu hinsvegar leikina af í Ólafsvík og í Kaplakrika nánast strax eftir lið FH og Víkinga byrjuðu með boltann á miðjunni. Það voru því sannkölluð flautumörk.
FH og KR er eins og spáð í titlabaráttuna í ár og þessar dramatísku lokamínútur skiptu þessi lið miklu máli. FH var þannig með fimm stigum meira en KR þegar komið fram í uppbótartíma leikjanna en eftir að lokaflautið gall þá munaði bara einu stigi á liðunum.
Það má sjá myndbandið með mörkunum í spilaranum hér fyrir ofan en hér fyrir neðan má sjá stutt yfirlit yfir þessi þrjú mörk.
3:29 mínútur liðnar af uppbótartíma og 5 sekúndur eftir
Ásgeir Sigurgeirsson skoraði jöfnunarmark KA á móti Íslandsmeisturum FH þegar 3:29 mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Dómarinn Pétur Guðmundsson flautaði leikinn af aðeins fimm sekúndum eftir að FH-ingar byrjuðu aftur með boltann á miðju.
2:49 mínútur liðnar af uppbótartíma og 5 sekúndur eftir
Pálmi Rafn Pálmason skoraði sigurmark KR þegar 2:49 mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Dómarinn Guðmundur Ársæll Guðmundsson flautaði leikinn af aðeins fimm sekúndum eftir að Ólafsvíkingar byrjuðu aftur með boltann á miðju.
2:23 mínútur liðnar af uppbótartíma og 32 sekúndur eftir
Andri Rúnar Bjarnason skoraði sigurmark Grindavíkur á móti Reykjavíkur-Víkingum þegar 2:23 mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Dómarinn Vilhjálmur Alvar Þórarinsson flautaði leikinn af 32 sekúndum eftir að Víkingar byrjuðu aftur með boltann á miðju.
Stigamunur á FH og KR á 90. mínútu leikjanna í 2. umferð
FH 6 stig
KR 1 stig
FH með 5 stiga forskot á KR
O Pálmi Rafn Pálmason skoraði fyrir KR á móti Víkingi Ó. á 90.+3 mínútu
O Ásgeir Sigurgeirsson skoraði fyrir KA á móti FH á 90.+4 mínútu
Stigamunur á FH og KR í leikslok leikjanna í 2. umferð
FH 4 stig
KR 3 stig
FH með 1 stigs forskot á KR

