Ríkisfréttastofan vísar til flugskeytisins sem skotið var á loft í gær við Kusong, norðvestan við höfuðborgina Pyongyang, í Norður-Kóreu. Þá var haft eftir Kim Jong-un að flaugar Norður-Kóreu næðu til Bandaríkjanna og að yfirvöld þar í landi mættu ekki vanmeta þá staðreynd.
Í frétt KCNA kom einnig fram að þess hafi verið gætt að flugskeytið færi ekki inn í lofthelgi nágrannalanda. Það er sagt hafa flogið 787 kílómetra og náð yfir 2000 kílómetra hæð.
„Tilraunaskotinu var ætlað að staðfesta herkænsku- og tæknilegar útlistanir á nýþróaðri skotflaug, sem getur borið kjarnaodd og enn fremur náð til Bandaríkjanna,“ sagði í tilkynningingu frá ríkisfréttastofu Norður-Kóreu.
Flugskeytið í gær ekki talið langdræg eldflaug
Norður-kóresk yfirvöld eru talin standa í þróun á langdrægri eldflaug (ICBM), á hverri hægt er að koma fyrir kjarnaoddi.Hersveit Bandaríkjanna við Kyrrahafið sagði þó að flugskeytið, sem skotið var á loft í gær, samræmdist ekki þeirri gerð langdrægrar eldflaugar sem Norður-Kóreumenn segjast vera að þróa.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mun hittast á þriðjudag til að ræða nýjasta eldflaugarskot Norður-Kóreu en með skotinu eru norður-kóresk yfirvöld sérstaklega talin hafa sent nýkjörnum forseta Suður-Kóreu, Moon Jae-in, skilaboð. Hann hefur heitið því að taka samband ríkjanna föstum tökum. Fundurinn á þriðjudag verður haldinn að beiðni Bandaríkjanna, Suður-Kóreu og Japans.
Yfirvöld Norður-Kóreu hafa lengi haft það að yfirlýstu markmiði að koma fyrir kjarnaoddi á langdræga eldflaug, sem næði til skotmarka um allan heim. Þá var tveimur flugskeytum skotið á loft í síðasta mánuði en tilraunirnar misheppnuðust báðar.