Umfjöllun, einkunnir og viðtöl: Valur - FH 1-1 | Jafntefli í kaflaskiptum leik

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Kristján Flóki Finnbogason tekur við boltanum undir pressu frá Hauki Páli Sigurðssyni.
Kristján Flóki Finnbogason tekur við boltanum undir pressu frá Hauki Páli Sigurðssyni. vísir/eyþór
Valur og FH gerðu 1-1 jafntefli í lokaleik 3. umferðar Pepsi-deildar karla í kvöld.

Leikurinn var afar kaflaskiptur. Valur var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en FH í þeim seinni.

Sigurður Egill Lárusson kom Valsmönnum yfir á 32. mínútu með marki úr vítaspyrnu.

Steven Lennon jafnaði svo metin með marki úr víti á 81. mínútu. Lokatölur 1-1.

Nánar verður fjallað um leikinn síðar í kvöld.

Af hverju varð jafntefli?

Leiknum í kvöld var bróðurlega skipt á milli liðanna. Valsmenn voru með tögl og haldir á leiknum í fyrri hálfleik. Aftur og aftur komust Valsmenn upp kantana, þá sérstaklega hægra megin þar sem Dion Acoff lék lausum hala. Valsmenn fengu urmul færa og hefði liðið geta klárað leikinn í seinni hálfleik.

Taflið snerist alveg við í síðari hálfleik. FH-ingar komu gríðarlega öflugir inn í seinni hálfleik og nú voru það þeir sem stjórnuðu ferðinni. Valsmenn duttu aftar á völlinn og buðu upp á það að FH-ingar myndu komast inn í leikinn. FH-ingar fengu mikið af færum til þess að jafna en inn vildi boltinn ekki fyrr en á 81. mínútu þegar Steven Lennon skoraði úr víti.

Óhætt er því að segja að jafntefli hafi verið sanngjörn niðurstaða.

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá Valsliðinu voru kantmennirnir Dion Acoff og Sigurður Egill Lárusson sérstaklega skeinuhættir. Acoff fór oft á tíðum illa með Böðvar Böðvarsson sem þurfti talsverða hjálp frá Þórarni Inga Valdimarssyni. Þá voru miðverðir Valsmanna öflugir í senni hálfleik og var Rasmus Steenberg Christiansen einstaklega óheppinn að fá boltann í hendina þegar vítið á Val var dæmt.

Leikurinn breyttist þegar Atli Guðnason kom inn á í upphafi seinni hálfleik. Með honum fengu FH-ingar meiri brodd í sóknarleikinn og þá lifnaði yfir Steven Lennon í framlínunni. Davíð Þór Viðarsson stjórnaði vörninni hjá FH eins og herforingi og keyrði sína menn áfram inn á vellinum.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur FH-ingar var vart til staðar í fyrri hálfleik og það sama má segja um sóknarleik Valsmanna í þeim seinni. Í þeim fyrri tókst heimamönnum að halda FH-ingum á eigin vallarhelmingi og það sama var upp á teningnum, nema hjá FH, í þeim síðari.

Bæði lið spiluðu á köflum virkilega góðan fótbolta og ljóst að þarna er á ferðinni lið sem verða í toppbaráttunni þangað til yfir líkur.

Hvað gerist næst?

Valsmenn komast upp að hlið Stjörnunnar og KA í efstu sætunum þar sem þessi lið eru með sjö stig. FH-ingar eru með fimm stig í fimmta sæti, rétt fyrir neðan efstu liðin.

Í næsta leik er önnur prófraun fyrir Valsara þar sem þeir taka á móti öðru liði sem er spáð velgengni, KR. FH-ingar fá hins vegar Fjölnismenn í heimsókn.

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH.Vísir/Eyþór

Heimir: Ellefu einstaklingar inn á vellinum í fyrri hálfleik

Heimir Guðjónsson. þjálfari FH, var ekki ánægður með frammistöðu síns liðs í fyrri hálfleik í leik Vals og FH í Pepsi-deild karla í fótbolta á Hlíðarenda í kvöld. Leikurinn var mjög kaflaskiptur og voru Valsmenn mun öflugri í fyrri hálfleik áður en taflið snerist við í þeim seinni.

„Vandræði FH-inga í fyrri hálfleik voru einfaldlega þau að það var engin samstaða um hvernig ætti að gera hlutina. Við löguðum það í seinni hálfleik og mér fannst á köflum í seinni hálfleik bara vera eitt lið á vellinum,“ sagði Heimir eftir leik.

Lið hans kom mun ákveðnara til leiks í seinni hálfleik og segir Heimir að þá fyrst hafi lið sitt farið að spila saman sem ein heild.

„Það sem að það breyttist var að í fyrri hálfleik voru ellefu einstaklingar á vellinu, Við vorum ekki að spila saman sem lið en það breyttist í seinni hálfleik. Þá sýndum við hvers við vorum megnugir,“ sagði Heimir.

Lið FH, sem spáð er góðu gengi á Íslandsmótinu er með fimm stig í fimmta sæti eftir þrjár umferðir og segja má að liðið hafi átt þrjá góða hálfleika á mótinu hingað til. Heimir er ekki sáttur með uppskeruna.

„Alls ekki, ég hefði viljað hafa sjö eða níu stig. Við vorum klaufar á móti KA og þurfum að tengja saman tvö hálfleika.“

Orri Sigurður: Ætluðum að taka þrjú stig á heimavelli

Orri Sigurður Ómarsson, miðvörður Vals, átti ágætan dag í hjarta varnarinnar í dag sem hélt alveg þangað til á 81. mínútu. Valsmenn komu grimmir til leiks og svarið við af hverju svo var segir Sigurður að sé einfalt.

„Við ætluðum bara að vinna. Það var ekki flóknara en það. Við ætluðum að taka þrjú stig á okkar heimavelli. Frábær fyrri hálfleikur en ekkert spes seinni hálfleikur. Við getum verið sáttir við eitt stig,“ segir Orri Sigurður.

FH-ingar gengu hins vegar á lagið í þeim seinni og gerðu vel í að vinna sig inn í leikinn. Valsmenn duttu til baka og hleyptu andstæðingunum inn í leikinn. Orri Sigurður segir að það hafi verið ómeðvitað.

„Þeir pressuðu okkur og við vorum ekki að vinna einvígin sem við vorum að vinna í fyrri hálfleik. Við komumst á bak við þá í seinni hálfleik og hefðum átt að gera það í seinni hálfleik,“ segir Orri Sigurður.

Athygli vakti að Orri var nokkuð sókndjarfur í kvöld og átti meðal annars eina metnaðarfulla tilraun af löngu færi eftir að hann boltann vel í miðjuhringnum. Hann sá að Gunnar í marki FH-inga var ekki alveg á tánum og lét vaða.

„Ég ætlaði svoleiðis að flengja hann en ég hitti hann ekki. Ég hefði kannski átt að keyra á Begga en ég ákvað að skjóta,“ segir Orri Sigurður og bætir því að Valsmenn sætti sig við stigið úr því að FH-ingar hafi náð að jafna undir lokin.

Einkunnir

Valur 4-2-3-1: 
Anton Ari Einarsson 7 - Bjarni Ólafur Eiríksson 6, Rasmus Steenberg Christiansen 8, Orri Sigurður Ómarsson 7, Arnar Sveinn Geirsson 6 - Einar Karl Ingvarsson 6 ('84 Nicolaj Kohlert), Haukur Páll Sigurðsson 6 - Sigurður Egill Lárusson 7 ('79 Sveinn Aron Guðjohnsen), Guðjón Pétur Lýðsson 6 ('70 Nicolas Bogild 5), Dion Jeremy Acoff 7 - Nikolaj Hansen 6.

FH 3-4-3: Gunnar Nielsen 7 - Bergsveinn Ólafsson 6, Davíð Þór Viðarsson 7, Böðvar Böðvarsson 5 - Jonathan Hendrickx 5, Emil Pálsson 5 ('76 Kassim Doumbia), Robbie Crawford 6, Þórarinn Ingi Valdimarsson 7- Halldór Orri Björnsson 4 ('56 Atli Guðnason 8), Kristján Flóki Finnbogason 5 ('84 Veigar Páll Gunnarsson), Steven Lennon 7.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira