Íslenski boltinn

Þór/KA áfram með fullt hús stiga | FH upp í 2. sætið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sandra Stephany Mayor Gutierrez var skotskónum í kvöld.
Sandra Stephany Mayor Gutierrez var skotskónum í kvöld. vísir/anton
Þór/KA er áfram með fullt hús stiga á toppi Pepsi-deildar kvenna eftir 2-0 sigur á Haukum á Þórsvelli í kvöld.

Þór/KA hefur unnið alla fjóra leiki sína til þessa með markatölunni 8-1. Haukar eru hins vegar án stiga í botnsæti deildarinnar.

Staðan var markalaus í hálfleik en á 65. mínútu kom hin 16 ára gamla Hulda Björg Hannesdóttir Þór/KA yfir.

Sandra Stephany Mayor Gutierrez tvöfaldaði svo forskotið með marki úr vítaspyrnu átta mínútum fyrir leikslok. Lokatölur 2-0, Þór/KA í vil.

FH vann sinn þriðja leik í röð þegar liðið bar sigurorð af KR, 2-1, í Kaplakrika. Með sigrinum lyftu FH-ingar sér upp í 2. sæti deildarinnar.

Aðeins 44 sekúndur voru liðnar af leiknum þegar FH var komið í 1-0. Caroline Murray gerði markið. Á 6. mínútu kom Guðný Árnadóttir FH svo í 2-0 með skoti beint úr aukaspyrnu.

Ásdís Karen Halldórsdóttir hleypti spennu í leikinn þegar hún skoraði fyrsta mark KR í sumar á 74. mínútu. Nær komust gestirnir hins vegar ekki og FH fagnaði góðum sigri.

KR er enn án stiga í níunda og næstneðsta sæti deildarinnar.

Stuðningsmenn íslenska kvennalandsliðsins geta glaðst yfir því að bæði Sandra María Jessen og Hólmfríður Magnúsdóttir komu inn á fyrir Þór/KA og KR í kvöld en þær hafa verið frá vegna erfiðra meiðsla.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×