Erlent

Hóta að byggja upp kjarnorkuvopn með auknum hraða

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu.
Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu. Vísir/AFP
Yfirvöld í Norður-Kóreu segjast ætla að hraða kjarnorkuvopnaáætlun sinni og ýja að nýrri tilraunasprengingu. Þeir saka Bandaríkin um að auka spennu á svæðinu með árásargirni og „móðursýki“ og segja að ef ekki væri fyrir kjarnorkuvopn Norður-Kóreu væri þegar búið að gera innrás í landið.

Þetta kemur fram í ríkismiðli Norður-Kóreu, KCNA, þar sem rætt er við talsmann Utanríkisráðuneytis landsins.

Bandaríkin hafa sent flugmóðurskipið USS Carl Vinson á svæðið til sameiginlegra æfinga með Suður-Kóreu. Þar að auki hafa Bandaríkin kallað eftir frekari þvingunum gegn Norður-Kóreu og pólitískum þrýstingi. Þá sérstaklega frá Kína.

Norður-Kórea hefur framkvæmt fimm kjarnorkusprengjutilraunir í trássi við ályktanir öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Samhliða kjarnorkuvopnaáætlun ríkisins hafa þeir einnig verið að þróa langdrægar eldflaugar með því yfirlýsta markmið að koma upp eldflaugum sem gætu drifið til Bandaríkjanna. Nú síðast skutu þeir eldflaug á loft á laugardaginn. Sú tilraun misheppnaðist þó.

Þar að auki hafa Norður-Kóreumenn æft kjarnorkuvopnaárásir á Japan.

Bandaríkin vinna nú að því að koma upp svokölluðu THAAd-Eldflaugavarnarkerfi í Suður-Kóreu. Það kerfi hefur nú verið gangsett, en enn á eftir að klára uppsetningu þess. Þá sagði Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, í dag að hann myndi hitta Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, undir réttum kringumstæðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×