Íslenski boltinn

Sjö ár frá síðasta sigri ÍBV í Garðabæ

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hilmar Árni Halldórsson og Sindri Snær Magnússon í baráttunni á Samsung-vellinum á síðustu leiktíð.
Hilmar Árni Halldórsson og Sindri Snær Magnússon í baráttunni á Samsung-vellinum á síðustu leiktíð. Fréttablaðið/Eyþór
Önnur umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta fer af stað á sunnudaginn með tveimur leikjum þegar Stjarnan tekur á móti ÍBV á Samsung-vellinum í Garðabænum og Ólafsvíkingar fá meistaraefnin í KR í heimsókn á Snæfellsnesið.

Eyjamönnum hefur gengið bölvanlega í Garðabæ undanfarin ár en sjö ár eru frá síðasta deildarsigri liðsins á móti Stjörnunni á útivelli. ÍBV vann aftur á móti bikarleik liðanna á Samsung-vellinum á síðustu leiktíð nokkuð sannfærandi en verr hefur gengið í deildinni.

Síðast vann ÍBV deildarsigur í Garðabænum þegar Tryggvi Guðmundsson og Úkraínumaðurinn Denis Sytnik skoruðu mörkin í 2-0 sigri árið 2010 en það ár var ÍBV í baráttu um Íslandsmeistaratitilinn. Síðan þá hafa Garðbæingar unnið fimm heimaleiki af sex á móti ÍBV í Pepsi-deildinni og einu sinni skildu liðin jöfn.

Stjarnan og ÍBV gerðu bæði jafntefli í fyrstu umferðinni. Stjarnan gerði 2-2 jafntefli við nýliða Grindavíkur á útivelli en ÍBV gerði markalaust jafntefli við Fjölni á heimavelli þar sem miðvörðurinn sterki, Hafsteinn Briem, fékk rautt spjald. Hann verður ekki með í leiknum á sunnudaginn.

KR og Víkingur Ólafsvík hafa aðeins mæst fjórum sinnum í efstu deild en í bæði skiptin sem KR hefur heimsótt Ólsara hafa þeir farið heim með þrjú stig eftir 1-0 sigur. KR hefur unnið þrjá af fjórum leikjum liðanna í efstu deild en einn þeirra, deildarleikurinn í Vesturbænum í fyrra, lyktaði með jafntefli.

Pálmi Rafn Pálmason skoraði eina mark KR á síðustu leiktíð þegar það heimsótti Ólsara vestur en bæði lið töpuðu í fyrstu umferð Pepsi-deildarinnar í ár. KR tapaði fyrir Víkingi Reykjavík á heimavelli en Ólsarar lágu í valnum á móti Valsmönnum á útivelli. - tom




Fleiri fréttir

Sjá meira


×