Suður-Kóreubúar ganga nú til forsetakosninga sem boðað var ti leftir að Park Geun-hye sagði af sér vegna spillingamála. Frambjóðandinn sem þykir sigurstranglegastur vill auka samskipti við Norður-Kóreu. BBC greinir frá.
Hinn frjálslyndi Moon Jae-in leiddi í skoðanakönnunum en miðjumaðurinn Ahn Cheol-soo var næstur á eftir honum. Moon vill nánari samskipti við Norður-Kóreu í von um að sú nálgun geti dregið úr þeirri spennu se nú ríkir á Kóreuskaga en samskipti Bandaríkjanna við nágranna Suður-Kóreubúa hafa farið versnandi að undanförnu.
Hafa bæði Moon og Ahn hvatt Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, til þess að draga úr hótunum sínum í garð Norður-Kóreu en Trump hefur ýjað að því að Bandaríkin gætu farið í hernaðaraðgerðir, láti Norður-Kórea ekki af eldflaugatilraunum.
Margt bendir þó til þess að kjósendur í Suður-Kóreu hafi meiri áhyggjur af spillingu og efnahagsmálum en stöðu mála í Norður-Kóreu. Búist er við metþáttöku í kosningunum, sérstaklega meðal ungs fólks en alls eru þrettán frambjóðendur í framboði.
Kjörstaðir loka fyrir hádegi á íslenskum tíma og er búist við að niðurstöður liggi fyrir fljótlega eftir það.

