United Silicon hefur starfsleyfi fyrir fjórum ljósbogaofnum sem að framleiða kísilmálm. Hver ofn á að framleiða 22.900 tonn á ári. Fyrsti ofninn var gangsettur um miðjan nóvember á síðasta ári og fékk nafnið Ísabella. Síðan þá hefur allt gengið á aftur fótunum. Stefna fyrirtækisins var að verða stærsta kísilmálmverksmiðja í heimi.
Fréttastofa hefur ítrekað reynt að fá forstjóra fyrirtækisins Helga Þórhallsson í viðtal en án árangurs.
Enginn framleiðsla hefur verið hjá fyrirtækinu frá því að eldur kom upp í verksmiðjunni aðfaranótt þriðjudags en slökkva þurfti á eina ljósbogaofni verksmiðjunnar vegna slökkvistarfa. Þann sama dag ætlaði Umhverfisstofnun að framkvæma viðamikla úttekt á starfseminni á staðnum og hugðist stöðva hana vegna þeirra fjölmörgu mengunarmála sem komið hafa upp á aðeins fimm mánaða starfs tíma fyrirtækisins.
Fyrirtækið hafi frest til hádegis í dag til þess að skila andmælum vegna lokunarinnar en fékk framlengingu til miðnættis á mánudag.
Stjórnendur United Silicon boðuðu til starfsmannafundar í dag þar sem starfsmönnum var gerð grein fyrir stöðu fyrirtækisins.
Hvað var farið yfir með starfsmönnum á fundi í morgun?
„Bara stöðuna eins og hún er í dag. Hvað er verið að gera og hvernig framtíðin lítur út,“ sagði Kristleifur Andrésson, öryggisstjóri United Silicon.

„Starfsmenn lesa fréttir og þeir auðvitað óttast það sem er verið að tala um í fréttum en við gátum leiðrétt þar sem hefur komið fram í fréttum og við sjáum framtíð og starfsmenn sjá framtíð,“ segir Kristleifur.
Kristleifur segir sérfræðinga frá framleiðanda og frá Noregi leiti allra leiða til þess að koma í veg fyrir þá mengun sem komið hefur frá fyrirtækinu frá því ljósbogaofninn var gangsettur.
„Við ætlum ekkert að setja í gang fyrr en það eru komnar einhverjar lausnir til þess að lágmarka þessa lykt,“ segir Kristleifur.
Hvað búist þið við að vera stopp lengi?
„Eins lengi og þarf,“ segir Kristleifur.
Í dag koma enga tekjur inn til fyrirtækisins þar sem framleiðslan er stopp en Kristleifur segir fyrirtækið vel í stakk búið til að takast á við það.
„Það er búið að fjármagna það,“ segir Kristleifur.
Er það gert með rekstrarstöðvunartryggingu?
„Það eru nokkra leiðir til þess að en það er ekkert vandamál í því,“ segir Kristleifur.
Það er enginn að fara missa vinnuna?
„Nei,“ segir Kristleifur.

Stöðvist starfsemi United Silicon til frambúðar getur það haft mikil áhrif á fjárhag Reykjanesbæjar en bærinn hefur lagt á annan tug milljarða í höfnina í Helguvík.
„Ef að stöðvunin verður til lengri tíma þá auðvitað hefur það áhrif á þær áætlanir sem að við erum að vinna eftir í dag en til skemmri tíma er þetta líka alvarlegt mál fyrir okkur að tapa þessum tekjum ef að af því yrði,“ segir Kjartan.