
Hann bendir á að lögreglan hafi staðið frammi fyrir umtalsverðum niðurskurði á fjárveitingu alveg frá hruni, eins og aðrar ríkisstofnanir. „Við höfum bent á að það þurfi að bæta í það til að við komumst á svipaðan stað og við vorum á fyrir hrun hvað varðar fjárveitingar og mannafla. Við höfum misst töluverðan fjölda lögreglumanna úr lögreglunni,“ segir Haraldur. Hann telur að lögreglumönnum hafi fækkað um 100 á liðnum árum.
„Við töldum á sínum tíma, þegar við vorum að meta mannaflaþörf, að lögreglan þyrfti að vera með um 900 lögreglumenn en við erum einhvers staðar undir 700 lögreglumönnum. Þetta skiptir verulegu máli,“ segir Haraldur.
Hann segir að það þurfi líka að bæta þjálfun lögreglumanna til að takast á við flókin verkefni, upplýsingasöfnun, netárásir og skipulagða glæpastarfsemi. „Þetta þarf að efla. Það er ýmislegt sem þarf að laga og við getum lagað og eflt lögregluna,“ segir hann.