Talið er að að minnsta kosti 67 manns, þar af fjöldi barna, hafi látist í efnavopnaárás á bæinn Khan Sheikhun Idlib-héraði í Norður-Sýrlandi í dag. Þá er talið að yfir 200 manns hafi særst í árásinni.
Bærinn er á valdi uppreisnarmanna en að því er fram kemur í frétt á vef Guardian var árásin gerð af mönnum á flugvélum sem talið er að séu hliðhollir Bashar al-Assad Sýrlandsforseta. Saríngas var að öllum líkindum notað í árásinni.
Skömmu eftir að efnavopnaárásin var gerð voru gerðar loftárásir annars vegar á spítala í borginni og hins vegar tvær bráðamóttökur þar sem verið var að taka á móti fórnarlömbum efnavopnaárásarinnar.
Árásin er gerð degi eftir að sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum lýsti því yfir að Bandaríkjastjórn legði ekki lengur áherslu á það að koma al-Assad frá völdum og sama dag og tveggja daga ráðstefna um framtíð Sýrlands hófst í Brussel en það eru Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar sem standa að ráðstefnunni.
Verið er að taka saman upplýsingar um árásina af samtökum sem berjast fyrir því að efnavopn verði bönnuð með öllu í heiminum. Þá hefur Jean-Marc Ayrault, utanríkisráðherra Frakklands, krafist neyðarfunds hjá öryggisráði SÞ vegna árásarinnar.
Þúsundir flóttamanna hafa flúið til Khan Sheikhun undanfarin misseri frá nágrannahéraðinu Hama vegna átaka sem geisað hafa þar.
„Í þessari árás þá köfnuðu tugir barna í svefni,“ sagði Ahmad Tarakji, formaður Sýrlensk-Ameríska læknafélagsins, við fjölmiðla og spurði hversu lengi heiminum ætlaði að mistakast að takast á við þessa hræðilegu glæpi.

