„Álit Íslendinga á Þýskalandi hefur minnkað talsvert undanfarna daga. Þýskaland var alltaf land efnahagslegs árangurs í augum Íslendinga en sú ímynd er ekki lengur við lýði eftir að rannsóknarnefnd Alþingis sýndi fram á að gömul þýsk fjármálastofnun hafi verið leppur í kaupum á hlut í Búnaðarbankanum,“ segir í frétt Süddeutsche Zeitung um aðild Hauck & Aufhäuser að kaupum á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum árið 2003.
Süddeutsche Zeitung er eitt helsta dagblað Þýskalands, en eins og Fréttablaðið greindi frá í morgun eru þýskir fjölmiðlar um þessar mundir að fjalla ítarlega um málið.
Frétt Harald Freiberger sem birtist í dag greinir frá því að Hauck & Aufhäuser hafi átt djúpan þátt í hruni íslenska fjármálakerfisins. Einnig er greint frá því að Martin Zeil, fyrrum stjórnmálamaður, hafi gegnt lykilhlutverk.
Greint er frá fléttunni ítarlega og sagt frá því að Hauck & Aufhauser hafa aldrei greitt kaupverðið sam nam 35 milljónum dollara og ekki tekið neina áhættu með kaupunum. Hauck & Aufhäuser hafi einungis hlotið 750 þúsund dollara greiðslu fyrir að taka þátt í samningnum. Þá er velt upp þeirri spurningu hvers vegna bankinn tók þátt.
Einnig er nefnt að nafn Martin Zeil sem forstöðumanns lögfræðisviðs Hauck & Aufhäuser komi aftur og aftur upp. Martin Zeil var síðar þingmaður í Þýskalandi og ráðherra í ríkisstjórn Bæjarlands. Hann sat á þingi Bæjaralands á árunum 2008 til 2013 og var þar varaforsætisráðherra og einnig ráðherra efnahags-, innviða-, samgöngu og tæknimála.
Í greininni kemur fram að Hauck & Aufhäuser var yfirtekinn af kínverska fyrirtækinu Fosun árið 2016, vegna þess hve langur tími er liðinn frá brotinu og þar sem lykilstarfsmenn sem tóku þátt í fléttunni eru hættir hjá bankanum neitar bankinn að tjá sig við þýska blaðamenn um málið.

