Sigurður Egill Lárusson skoraði þrennu þegar Valur bar sigurorð af ÍA, 3-1, í uppgjöri toppliðanna í lokaumferð riðils 3 í Lengjubikar karla í fótbolta.
Valsmenn unnu alla fimm leiki sína í riðlinum en tapið í kvöld var fyrsta tap Skagamanna í Lengjubikarnum í vetur.
Sigurður Egill opnaði markareikninginn á 31. mínútu þegar hann skoraði af stuttu færi eftir góðan sprett og sendingu Kristins Inga Halldórssonar.
Sigurður Egill var aftur á ferðinni á 73. mínútu þegar hann skaut boltanum í slá og inn eftir sendingu Dions Acoff.
Þórður Þorsteinn Þórðarson minnkaði muninn með marki úr vítaspyrnu á 83. mínútu en Sigurður Egill fullkomnaði þrennuna með hann skoraði eftir sendingu Dions á lokamínútunni.
Í sama riðli vann HK 2-1 sigur á Víkingi Ó. Ásgeir Marteinsson og Andi Andri Morina skoruðu mörk HK sem endar í 4. sæti riðilsins með sex stig. Ólsarar eru með þremur stigum minna í sætinu fyrir neðan.
