Fótbolti

Guardiola vill fá strákinn til City en nú hefur Chelsea líka áhuga | Hvað gerir hann í kvöld?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thomas Lemar.
Thomas Lemar. Vísir/Getty
Chelsea og Manchester City verða í aðalhlutverki í kapphlaupinu um hinn 21 árs gamla Frakka Thomas Lemar sem hefur slegið í gegn hjá Mónakó-liðinu.

Franska blaðið L'Equipe segir frá bæði ensku liðin hafi mikinn áhuga á því að kaupa strákinn í sumar.

Thomas Lemar mætir með félögum sínum á Etihad-leikvanginn í kvöld þegar Manchester City og Mónakó spila fyrri leikinn sinn í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.  Eftir fréttina hjá L'Equipe er ljós að margir munu horfa sérstaklega á hvað strákurinn gerir í leiknum í kvöld.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, er hrifinn af Lemar en spænski stjórinn er ekki sá eini. Þannig gæti eftirspurnin aukist standi Lemar sig vel í þessum stóra sýningaglugga sem leikurinn er í kvöld.

Thomas Lemar er með sjö mörk og sex stoðsendingar í 22 leikjum með Mónakó í frönsku deildinni í vetur og þá hefur hann skorað tvö mörk í sex leikjum í Meistaradeildinni.

L'Equipe segir einnig að þótt að mestar líkur séu á því að Lemar fari til Englands þá séu einnig Juventus og Bayern München að fylgjast vel með hinum.

Samingur Thomas Lemar og Mónakó rennur ekki út fyrr en árið 2020 og því mun franska liðið reyna að fá meira en 34 milljón punda fyrir hann eða meira en 4,6 milljarða íslenskra króna.

Mónakó myndi þá græða vel að stráknum því félagið keypti hann fyrir aðeins þrjár milljónir punda, 414 milljónir íslenskar, frá Caen árið 2015.



Leikur Manchester City og Mónakó hefst klukkan 19.45 í kvöld og verður í beinni á Stöð 2 Sport 2 og Stöð 2 Sport 2 HD.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×