Enski boltinn

Wenger, hefur þú séð hvað gerist þegar Coquelin spilar ekki?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Francis Coquelin.
Francis Coquelin. Vísir/Getty
Arsene Wenger fær örugglega nóg af gagnrýni eftir vandræðalegt stórtap á móti Bayern München í gær og stór hluti stuðningsmanna félagsins er fyrir löngu búinn að fá leið á að upplifa alltaf sömu hlutina á þessum tíma ársins.

5-1 tap í fyrri leiknum á móti Bayern München þýðir að Meistaradeildartímabilið endar enn einu sinni í sextán liða úrslitunum.

Francis Coquelin er í mikilvægu hlutverki á miðju Arsenal-liðsins en er kannski kominn tími á það að Wenger reyni aðra kosti.

Coquelin leit ekki vel út þegar Arjen Robben skoraði fyrsta mark Bayern-liðsins í gær og hann hefur verið að gera dýrkeypt mistök í leikjum liðsins að undanförnu.

Kannski er besta lausnin fyrir Arsene Wenger að henda Coquelin út úr liðinu. Tölfræðin segir það að minnsta kosti.

Coquelin er búinn að missa af tíu leikjum á tímabilinu og Arsenal hefur unnið þá alla. Það sem meira er að markatalan í leikjunum tíu er 30-4 Arsenal í hag.

Liðið er samt að skora 3 mörk í leik og fá aðeins 0,4 mörk á sig í leik á þessu tímabili þegar Francis Coquelin kemur ekkert við sögu í leiknum.

Það hefur gengið illa fyrir Wenger að finna varnartengilið eftir að Patrick Viera yfirgaf Arsenal og fyrir vikið hefur verið lítið um titla hjá lærisveinum Wenger. Það geta flestir verið sammála að Coquelin er ekki rétta svarið.

Hvort að Wenger viti af þessari tölfræði í leikjum án Coquelin er ekki vitað en einhver mætti í það minnsta benda honum á hana.



Leikirnir sem Francis Coquelin hefur misst af á tímabilinu

Meistaradeildin: 2 leikir, 2 sigrar

2-0 sigur á Basel

4-1 sigur á Basel

Enska úrvalsdeildin: 4 leikir, 4 sigrar

3-1 sigur á Watford

1-0 sigur á Burnley

3-1 sigur á Bournemouth

4-0 sigur á Swansea

Enska bikarkeppnin: 2 leikir, 2 sigrar

2-1 sigur á Preston

5-0 sigur á Southampton

Enski deildabikarinn: 2 leikir, 2 sigrar

4-0 sigur á Nottingham Forrest

2-0 sigur á Reading

Samanlagt: 10 sigrar í 10 leikjum

Markatalan: +26 (30-4)





Fleiri fréttir

Sjá meira


×