Sturla Snær Snorrason heldur áfram að gera það gott á HM í alpagreinum sem nú fer fram í St. Moritz í Sviss.
Sturla Snær er í 52. sæti eftir fyrri ferðina en hann fór hana á 1:11,78 mínútum og er 5,05 sekúndum á eftir fremsta manni, Marcel Hirscher frá Austurríki. 60 efstu keppendurnir fá að keppa í seinni ferðinni og verður því Sturla Snær á meðal keppenda þar.
Sturla Snær var með rásnúmer 81 og náði því að vinna sig upp um tæp 30 sæti sem er frábær árangur.
Hann gerði einnig vel í undankeppninni í gær þar sem hann hafnaði í öðru sæti eftir að hafa verið með rásnúmer 39.
Síðari ferðin fer fram síðar í dag en þar fær Sturla Snær tækifæri til að vinna sig enn ofar.
