Hvítrússneski blaðamaðurinn Vyacheslav Fedorenkov stóð við loforð sitt um að éta eigin dagblað þar sem hann spáði rangt fyrir um örlög íshokkíliðsins Dinamo Minsk sem er uppáhaldsliðið hans.
Fedorenkov er blaðamaður á blaðinu Pressball en hann spáði því á síðum blaðsins að Dinamo Minsk kæmist ekki í úrslitakeppnina. Það reyndist aftur á móti rangt hjá honum og þurfti Fedorenkov því bókstaflega að éta orð sín.
Fedorenkov mætti á leikvanginn í Minsk með eintak af blaðinu þar sem hann spáði rangt fyrir um gengi Dinamo-liðsins. Hann skellti blaðinu út á súpu og byrjaði svo að borða.
„Ég myndi gera allt fyrir uppáhaldsliðið mitt,“ sagði Fedorenkov á milli bita.
