Cristian Martinez Liberato verður áfram í marki Ólafsvíkinga í Pepsi-deildinni næsta sumar.
Knattspyrnudeild Víkings úr Ólafsvík og Cristian Martinez Liberato markvörður hafa framlengt samning sinn út keppnistímabilið 2017 en þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
„Það er stjórn Víkings mikið ánægjuefni að skrifa undir framlengingu á samning við Cristian en hann var valinn besti leikmaður félagsins árið 2016. Cristian hefur leikið með Víking Ó frá árinu 2015 og hefur á þeim tíma leikið 49 leiki fyrir félagið,“ segir í fréttatilkynningunni.
Cristian Martinez Liberato er 27 ára Spánverji. Hann fékk á sig 32 mörk og hélt fjórum sinnum hreinu í 20 leikjum með Víkingi Ó. í Pepsi-deildinni 2016.
Tímabilið á undan hélt hann ellefu sinnum hreinu í 21 leik í B-deildinni þar sem hann fékk bara 14 mörk á sig.
