Frakkar koma úthvíldir í leikinn gegn Íslandi í 16-liða úrslitum HM í Frakklandi en leikurinn fer fram í Lille á morgun.
Frakkar unnu nauman sigur á Pólverjum í gær, 26-25, en leikurinn skipti engu máli. Frakkar voru búnir að tryggja sér efsta sæti A-riðils og Pólverjar voru fastir í fimmta sætinu.
„Við gátum gefið leikmönnu sem hafa fengið minna að spila tækifæri,“ sagði Didier Dinart, þjálfari franska liðsins, við fjölmiðla eftir leikinn í gær.
„Við gátum hvílt Nikola Karabatic og Valentin Porte. Þá var hægt að skipta út leikmönnum og við sáum frábæran Olivier Nyokias í kvöld.“
„Það var margt við leikinn í kvöld sem gerir okkur kleift að fara inn í 16-liða úrslitin í eins góðu ásigkomulagi og hægt er. Það verður ekki endilega auðvelt að spila gegn Íslandi,“ sagði Dinart sem vildi helst sleppa við að mæta Íslendingum á morgun.
Sjá einnig: Dinart: Leikir gegn Íslandi alltaf sérstakir
Markahæstur í franska liðinu í gær var Nyokast með sjö mörk í níu skotum. Hann spilaði nærri allan leikinn. Daniel Narcisse spilaði hins vegar í aðeins 23 mínútur og skoraði ekki, Michel Guigou spilaði í rúmar fimm mínútur.
Leikurinn á morgun fer fram í Lille sem fyrr segir en hann verður leikinn á knattspyrnuleikvangi borgarinnar sem hefur verið breytt í handboltahöll. Hún getur tekið 27.500 manns í sæti og er reiknað með því að aðsóknarmet á handboltaleik í Frakklandi verði slegið á morgun.
Leikurinn hefst klukkan 17.00 og verður vitanlega fylgst með honum í Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins.
Ekki missa af neinu sem gerist á HM í Frakklandi. Vísir er með öflugt fréttateymi á mótinu sem færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).
