Jón Gunnarsson, samgöngu-, fjarskipta- og byggðamálaráðherra í nýrri ríkisstjórn, segir nauðsynlegt að það skapist einhver vissa um framtíð miðstöðvar innanlandsflugs í landinu á kjörtímabilinu.
Jón segir að málefni Reykjavíkurflugvallar sé einn af þeim þáttum samgöngumála sem sé í óásættanlegri stöðu. „Þessi óljósa framtíð Reykjavíkurflugvallar getur auðvitað ekki verið. Ég hef nú sagt það áður í ræðu og riti að það þurfi að ganga frá því til framtíðar hvernig við högum þeim málum.“
Þú hefur áður talað um að þú viljir að Reykjavík verði miðstöð innanlandsflugs í landinu.
„Já, ég hef gert það,“ segir Jón.
Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar segir að hún muni beita sér fyrir „lausn á áratugadeilu um framtíð Reykjavíkurflugvallar með því að stofna til formlegra viðræðna samgönguyfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, Reykjavíkurborgar, annarra sveitarfélaga og hagsmunaaðila. Tekin verði ákvörðun um fyrirliggjandi kosti að undangengnu mati og innviðir innanlands- og sjúkraflugs þannig tryggðir til framtíðar.“
Heldurðu að það muni takast að ná einhverri sátt og lendingu í þessu máli á kjörtímabilinu?
„Það verður að gera það. Reykjavíkurflugvöllur gegnir gríðarlega veigamiklu hlutverki í okkar samgöngum. Aðstæður þar eru algerlega óviðunandi, bæði fyrir starfsfólk og farþega. Það verður að ná saman um einhverja framtíðarsýn þannig að hægt sé að ráðast í eðlilega uppbyggingu og horfa til lengri tíma. Við getum ekki búið við þessa stöðugu óvissu.“
En þú sjálfur vilt hafa völlinn áfram í Vatnsmýrinni?
„Það er engin önnur lausn í stöðunni. Það er auðvitað áhugavert að skoða allar framtíðarpælingar um eitthvað annað, en það er eitthvað sem er komið svo stutt á veg að það mun í mínum huga taka mörg ár að koma niðurstaða í. Á meðan getum við ekki búið við einhverja óvissu um Reykjavíkurflugvöll,“ segir Jón, sem kveðst fullur tilhlökkunar að takast á við þau verkefni sem bíði sín í nýju embætti.
Þörf á miklu átaki í innviðauppbyggingu
Jón segir að það hafi ekki farið framhjá neinum að það sé þörf á miklu átaki í innviðauppbyggingu í samgöngumálum.
„Það er eitt af þeim verkefnum sem ríkisstjórn mun þurfa að horfa til. Nýbúið er að samþykkja fjárlög og það á eftir að munstra það inn í samgönguáætlun og forgangsraða í þeim hluta málanna. Maður þarf því bara að setja sig í stellingar og takast á við þetta og raða niður. Ég á eftir að fara yfir það með fólkinu og fara yfir stöðuna og reyna að koma hjólunum af stað sem fyrst,“ segir Jón.
Nýr samgönguráðherra: Engin önnur lausn í stöðunni en að hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýri

Tengdar fréttir

Svona lítur stjórnarsáttmálinn út
Formenn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar undirrituðu sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf í Gerðarsafni í Kópavogi í dag klukkan 14:30.

Nýr umhverfisráðherra: „Ósnortin víðerni eru mér mjög kær“
Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, er nýr umhverfis- og auðlindaráðherra. Hún segist mjög spennt fyrir þessu nýja verkefni en umhverfismál hafa lengi verið henni hugleikin.

Segjast ekki hafa gefið eftir í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum
Þingflokkur Bjartrar framtíðar hefur ekki enn tekið ákvörðun um það hvort þingmenn flokksins, sem verða ráðherrar í nýrri ríkisstjórn, segi af sér þingmennsku.

Svona skiptast ráðuneytin á milli flokkanna
Ráðherraskipan hefur ekki verið ákveðin.