Íslenska handboltalandsliðið hefur ekki byrjað verr á stórmóti í þrettán ár en liðið er enn án sigurs á HM í handbolta í Frakklandi eftir þrjá leiki.
Það þarf að fara aftur til ársins 2004 til að finna stórmót þar sem íslenska liðið náði síðast ekki að fagna sigri í fyrstu þremur leikjum sínum. Ísland hefur heldur ekki byrjað verr á heimsmeistaramótið síðan á heimsmeistaramótinu í Danmörku fyrir 39 árum síðan.
Íslenska landsliðið komst ekki upp úr riðlinum á EM í Slóveníu 2004. Liðið fékk þá bara eitt stig í þremur leikjum eftir tap á móti Slóveníu í fyrsta leik og Ungverjalandi í öðrum leik en liðið gerði síðan jafntefli við' Tékka í lokaleiknum.
Íslenska landsliðið náði í sitt fyrsta stig á móti Túnis í gær en aðeins þrisvar sinnum hafa strákarnir okkar farið stigalausir í gegnum fyrstu þrjá leiki sína síðast á EM í Króatíu árið 2000. Ísland fékk heldur ekki stig í þremur leikjum sínum á HNM 1974 og á HM 1978.
Ísland spilaði ekki fleiri leiki á HM 1974, HM 1978 eða á HM 2004 en á Evrópumótinu í Króatíu fyrir sautján árum tapaði liðið fyrstu fimm leikjum sínum og vann ekki leik fyrr en á móti Úkraínu í leiknum um ellefta sætið.
Guðmundur Guðmundsson var á sínu þriðja stórmóti með íslenska landsliðið á EM í Slóveníu 2004 og Þorbjörn Jensson var á sínu öðru stórmóti með íslenska landsliðið á EM í Króatíu 2000.
Þetta er því versta byrjun þjálfara með íslenska landsliðið á sínu fyrsta stórmóti á þessari öld en Geir Sveinsson er nú í fyrsta sinn með strákana okkar á stórmóti.
Fæstir sigurleikir Íslands í fyrstu þremur leikjum sínum á stórmóti í handbolta:
0 - HM 1974 í Austur-Þýskalandi
0 - HM 1978 í Danmörku
0 - EM 2000 í Króatíu
0 - EM 2004 í Slóveníu
0 - HM 2017 í Frakklandi
Fæst stig Íslands í fyrstu þremur leikjum sínum á stórmóti í handbolta:
0 - HM 1974 í Austur-Þýskalandi
0 - HM 1978 í Danmörku
0 - EM 2000 í Króatíu
1 - EM 2004 í Slóveníu
1 - HM 2017 í Frakklandi

