„Við teljum að Amri hafi byrjað að leita samverkamanna til að fremja árás þegar í ársbyrjun 2016,“ hafa þýskir fjölmiðlar eftir heimildarmönnum innan lögreglunnar.
Amri er nú leitað um alla Evrópu en hann hafði verið undir eftirliti yfirvalda fyrr á þessu ári. Fréttastofa breska ríkisútvarpsins BBC greinir frá því að hann hafi verið undir eftirliti vegna gruns um að hafa lagt á ráðin um að fjármagna kaup á sjálfvirkum skotvopnum með ráni.
Yfirvöld hættu hins vegar rannsókn sinni á Amri vegna skorts á sönnunargögnum.
Áður en hann kom til Þýskalands, þar sem hann sótti um hæli, hafði hann afplánað fjögur ár í fangelsi á Ítalíu vegna íkveikju og átti yfir höfði sér fangelsisvist í Túnis. Frá því að hann kom til landsins á hann að hafa dvalið bæði í Berlín og Emmerich í vesturhluta Þýskalands. Í Berlín á hann að hafa stundað fíkniefnaviðskipti.
Tólf létu lífið og 49 særðust í árás mánudagsins þegar maður ók flutningabíl inn á jólamarkaðinn á Breitscheidplatz í Berlín.
New York Times segir að Amri hafi verið á lista yfir þá sem ekki mættu ferðast til Bandaríkjanna.
Í frétt SVT segir að rannsóknarlögregla hafi snemma grunað að Amri hugði á árás í Þýskalandi. Hann á margsinnis að hafa ferðast milli Berlínar og Ruhr í vesturhluta landsins og notaðist við mörg ólík dulnefni.
Öryggislögregla Þýskalands á að hafa varað við að hann skipulagði innbrot til að komast yfir sjálfvirkt skotvopn sem notað yrði í árás. „Sönnunargögnin virðast þó ekki hafa dugað til handtöku,“ segir ónafngreindur lögreglumaður í samtali við Bild.
